Erlent

Þjóðaröryggismál að útrýma fátækt

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Samtökin One, sem eru baráttusamtök gegn fátækt, vilja að næsti forseti Bandaríkjanna skuldbindi sig til þess að stíga ákveðin skref til þess að draga úr hungri og sjúkdómum og bæta aðgang að menntun og vatni alls staðar í heiminum. Samtökin hafa ákveðið að eyða 30 milljörðum dala til þess að þrýsta á frambjóðendur fyrir bandarísku forsetakosningarnar að einbeita sér að gegn fátækt í heiminum. AP fréttastofan hefur það eftir Bill Frist, fyrrverandi þingmanni öldungardeildarinnar, að það sé þjóðaröryggismál að veita málefninu athygli, því þau ríki sem hjálpað verður úr neyð muni síður vilja ráðast gegn Bandaríkjunum.

 

Stofnendur og helstu forsvarsmenn samtakanna eru allt frægir listamenn, þar á meðal Bono, söngvari U2, Matt Damon og Brad Pitt. Samtökin hafa um árabil unnið að því að vekja fólk til meðvitundar um fátækt í heiminum. Nú er komið að því að virkja valdamenn. Síðustu mánuði hafa sjálfboðaliðar íklæddir svarthvítum ONE stuttermabolum og með veggspjöld, mætt á umræðufundi og aðrar uppákomur hjá forsetaframbjóðendum. Starfsemi samtakanna mun aukast á næstu mánuðum, því von er á alls kyns auglýsingum og uppákomum tengdu efninu, allt fram að kosningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×