Erlent

Smit dreifist sífellt hraðar

Wayan Suamba selur kjúklinga á eyjunni Bali í Indónesíu. Hann missti eiginkonu sína úr fuglaflensu á þriðjudaginn.
Wayan Suamba selur kjúklinga á eyjunni Bali í Indónesíu. Hann missti eiginkonu sína úr fuglaflensu á þriðjudaginn. AFP

Á síðasta ári ferðaðist 2,1 milljarður manna með flugvélum um jörðina. Þetta gerir það að verkum að smitsjúkdómar dreifast hraðar milli manna en nokkru sinni fyrr, að því er fram kemur í nýrri ársskýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO.

Stofnunin segir nauðsynlegt að ríki starfi saman og fari eftir nýjum reglum stofnunarinnar í baráttunni gegn þessari vá. "Hættan er alls staðar," segir Margaret Chan, framkvæmdastjóri WHO. "Nýir sjúkdómar koma fram á sjónarsviðið, að meðaltali einn á hverju ári, sem er meira en nokkru sinni."

Í júní síðastliðnum tóku gildi nýjar alþjóðlegar heilbrigðisreglur, sem stjórnvöld í ríkjum heimsins eru hvattar til að fylgja þegar tilkynnt er um nýja sjúkdóma eða faraldra.

Einnig er ætlast til þess að WHO séu send sýnishorn af veirum, sem skotið hafa upp kollinum, eins og til dæmis fuglaflensuveirunni H5N1.

Oft vill þó verða misbrestur á því, til dæmis hefur Indónesía ekki sent sýnishorn af fuglaflensuveiru til WHO, þrátt fyrir að þar í landi hafi sjúkdómurinn komið harðast niður.

Ástæðan er sú að stjórn Indónesíu hefur krafist þess að bóluefni, sem hugsanlega verða unnin úr veirunum, verði nægilega ódýr til þess að fátæk lönd hafi efni á henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×