Erlent

Bush segist enn stefna að sigri

Bush tekur í höndina á Gary Kurpius, yfirmanni samtaka fyrrverandi hermanna.
Bush tekur í höndina á Gary Kurpius, yfirmanni samtaka fyrrverandi hermanna. MYND/AP

„Meðan ég er æðsti yfirmaður hersins munum við berjast til sigurs,“ sagði George W. Bush Bandaríkjaforseti á fundi hjá fyrrverandi hermönnum, sem barist hafa í styrjöldum erlendis.

„Ég er sannfærður um að við munum hafa betur,“ sagði hann og uppskar mikið lófatak.

Í ræðu sinni líkti Bush stríðinu í Írak við fyrri styrjaldir Bandaríkjamanna í Asíu, sem drógust á langinn og misstu stuðning almennings en þykja eftir á hafa skilað árangri.

„Þær hugsjónir og þeir hagsmunir sem urðu til þess að Bandaríkjamenn hjálpuðu Japönum að breyta ósigri í lýðræði eru þau sömu og urðu til þess að við erum enn að verki í Afganistan og Írak,“ sagði Bush, og vísaði einnig til bæði Kóreustríðsins og Víetnamstríðsins.

Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings, hafnaði þó strax þessari söguskoðun forsetans og sagði hann horfa framhjá því sem skilur á milli: „Ríkisstjórn Bush afvegaleiddi þjóðina til stuðnings við innrásina í Írak á fölskum forsendum, svo úr varð eitt versta klúður sögunnar í utanríkismálum.“

Bush notaði einnig ræðu sína til að ítreka enn á ný stuðning sinn við Nouri al-Maliki forsætisráðherra í Írak og taka af allan vafa um að hann hafi ekki snúið við honum baki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×