Erlent

Áhrifaríkt að sjá bráðnandi jökla

Angela Merkel á Grænlandi ásamt Anders Fogh Rasmussen og Sigmar Gabriel, umhverfisráðherra Þýskalands.
Angela Merkel á Grænlandi ásamt Anders Fogh Rasmussen og Sigmar Gabriel, umhverfisráðherra Þýskalands. nordicphotos/afp

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, er komin heim úr tveggja daga heimsókn til Grænlands þar sem hún skoðaði áhrif gróðurhúsalofttegunda á jökla landsins.

„Það hafði töluverð áhrif á mig að sjá ísjakana og heyra það að þeir hefðu hörfað um fimmtán kílómetra á sex árum,“ sagði Merkel, sem heimsótti Grænland í fylgd Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana. Óttast vísindamenn að bráðnun jöklanna leiði til þess að sjávarborð hækki í heiminum sem gæti haft stórhættulegar afleiðingar.

Merkel sagði að bæði Bandaríkin og Kína, sem losa þjóða mest af koltvísýringi í andrúmsloftið, yrðu að taka þátt í gerð nýs samnings um losun gróðurhúsalofttegunda sem á að koma í staðinn fyrir Kyoto-samninginn. „Okkar markmið er að komast að nýju samkomulagi sem ætti að komast í gagnið árið 2012 þegar núverandi samningur rennur út,“ sagði Merkel. „Bandaríki og Kína verða að vera hluti af þessu samkomulagi.“

Anders Fogh Rasmussen sagði að mikil vinsemd ríkti á milli Þýskalands og Danmerkur. „Grænland sýnir það og sannar að loftslagið í heiminum er að breytast og að brýn þörf sé á aðgerðum til að hægja á þessum breytingum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×