Erlent

Kennsl borin á lík móður lestarstöðvarstúlkunnar

Lögreglan í Nýja Sjálandi hefur gefið út handtökuskipun á föður stúlkunnar sem skilin var eftir á lestarstöð í Ástralíu eftir að kennsl voru borin á lík móður stúlkunnar. Líkið fannst í gær í skotti bifreiðar fyrir utan heimili fjölskyldunnar á Nýja Sjálandi.

Talsmaður lögreglunnar segir að handtökuskipunin vegna morðs og mannráns hafi verið send til Alþjóðalögreglunnar Interpol í Bandaríkjunum. Maðurinn flúði þangað á laugardag.

Lögreglur landanna þriggja hafa rannsakað málið eftir að Xue sást á öryggismyndbandi skilja þriggja ára dóttur sína eina eftir á lestarstöð í Melbourne í Ástralíu. Stuttu síðar fór hann um borð í flugvél til Los Angeles.

Lögreglan á Nýja Sjálandi hóf leit að móðurinni stuttu eftir að stúlkan var yfirgefin þar sem grunsamlegt þótti að hún skyldi ekki hafa samband við yfirvöld út af hvarfi dótturinnar.

Fjölskyldan hafði búið á Nýja Sjálandi frá árinu 2002, en faðirinn gaf út tímarit á kínversku. Hin þriggja ára Qian er nú í fóstri hjá fjölskyldu í Melbourne, en hún mun eiga erfitt með svefn og spyr í sífellu um móður sína.

Rannsókn málsins hefur leitt í ljós að vandræði voru á heimilinu vegna heimilisofbeldis, en krufning hefur leitt í ljós að móðirin sem var 27 ára lést við átök.

Lögreglan hefur verið gagnrýnd fyrir hversu langan tíma það tók að finna lík konunnar í bílnum, en fram hefur komið að 45 klukkutímar hafi liði frá því að leit hófst þar til skott bílsins var opnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×