Erlent

Verður sjónvarpað frá aftöku Saddams?

Aftaka hefur aldrei verið sýnd í fréttum bandarískra sjónvarpsstöðva.
Aftaka hefur aldrei verið sýnd í fréttum bandarískra sjónvarpsstöðva.

Bandarískar sjónvarpsstöðvar velta nú fyrir sér hvernig þær eigi að haga fréttaflutningi sínum af aftöku Saddams Hussein um helgina. Búist er við því að aftkan verði tekin upp á myndband og hugsanlega sýnd í sjónvarpi í Írak. Sjónvarpsstöðvarnar CBS, NBC og Fox News hafa skýrt frá því að Saddam verði tekinn af lífi áður en helgidagur múslíma gengur í garð í Írak á miðnætti aðfaranótt sunnudags. Þjóðaröryggisráðgjafi Íraksstjórnar staðfesti í samtali við fréttastofu CBS, að aftakan yrði tekin upp á myndband. Enn er óljóst hinsvegar hvort sú upptaka verður síðan sýnd í sjónvarpi í Írak.

Átta klukkustunda tímamunur er á milli Baghdad og austurstrandar Bandaríkjanna, þaðan sem fréttatímar bandarísku sjónvarpsstöðvanna eru sendir. Þetta þýðir að miðað við síðustu fréttir af tímasetningu aftökunnar verði Saddam líflátinn áður en klukkan verður 17 á laugardag Í New York og Washingon, eða kl 21 að íslenskum tíma.

Miðað við upptöku hengingu 13 sakamanna sem stjórnvöld í Írak sendu frá sér á þriðjudaginn var, má gera ráð fyrir að upptakan af aftökunni verði ekki beinlínis barnvænt sjónvarpsefni. Fundað var sérstaklega um fyrirhugaðan fréttaflutning hjá að minnsta kosti tveimur bandarísku sjónvarpsstöðvanna í gær. ABC og CBS sögðust ekki ætla að sjónvarpa aftökunni í heild þó svo að myndband af henni lægi fyrir. Fulltrúi NBC segir að hægt verði að meðhöndla myndbandið þannig að velsæmis væri gætt. CNN og Fox News höfðu enn ekki ákveðið þegar síðast fréttist hvernig staðið yrði að verki hjá þeim. Aftaka hefur aldrei verið sýnd í fréttum bandarískra sjónvarpsstöðva.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×