Erlent

Múslimar lagðir af stað í pílagrímsferð

Múslimar á bæn og snúa í átt að Kaaba, helgasta véi íslams.
Múslimar á bæn og snúa í átt að Kaaba, helgasta véi íslams.

Áætlað er að þrjár milljónir múslima eru lagðir af stað frá borginni Mekka í Sádiarabíu í hina árlegu pílagrímsferð Hajj, sem er ein af fimm stoðum íslams. Miklar öryggisráðstafanir eru í kringum gönguna til að reyna að koma í veg fyrir troðning eins og þann sem varð 400 manns að bana í síðustu göngu í janúar.

Pílagrímarnir halda nú til nágrannaborgarinnar Mina, þar sem þeir munu gista næstu daga. Þeir fylgja síðan aldagamalli hefð sem fylgir í öllu skrefum Múhameðs spámanns fyrir rúmum 14 öldum síðan. Þegar pílagrímarnir snúa aftur til Mekka ganga þeir meðal annars 7 sinnum rangsælis í kringum Kaaba, sem er svört bygging í miðju moskunnar.

Pílagrímsathöfnunum á að ljúka á mánudag á nýju ári. Öllum múslimum ber skylda til að fara í þessa pílagrímsferð í það minnsta einu sinni á ævinni, að því gefnu að líkamlegt ástand og fjárhagur þeirra leyfi. Fyrir velflesta múslima er þetta mjög tilfinningaþrungin stund og langþráður áfangi á lífsleiðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×