Erlent

Forsetahöllin í Sómalíu á vald stjórnarinnar á ný

Stjórnarhermenn á leið til höfuðborgarinnar á bílpöllum.
Stjórnarhermenn á leið til höfuðborgarinnar á bílpöllum. MYND/AP
Herflokkar hliðhollir stjórnvöldum hafa náð nokkrum lykilbyggingum í höfuðborginni Mogadishu á sitt vald, þeirra á meðal er forsetahöllin fyrrverandi, Villa Somalia. Uppreisnarsveitir Íslamska dómstólaráðsins yfirgáfu höfuðborgina í nótt. Íbúar í Mogadishu segja mikið um ofbeldi og þjófnaði á götum Mogadishu eftir brotthvarf uppreisnarmannanna.

Almenn ringulreið ríkir nú í borginni með tilheyrandi byssuskothríð, ránum og eftirlitsstöðvum sem reistar hafa verið á götunum. Stjórnarhermennirnir eru nú á leið til höfuðborgarinnar og munu taka stjórnina þar, með aðstoð eþíópískra hersveita sem hafa stutt við bakið á bráðabirgðastjórn Sómalíu.

Herflokkarnir sem nú hafa tekið forsetahöllina eru undir stjórn fyrrum hersveitaleiðtoga Hussein Mohamed Aideed, sem nú er innanríkisráðherra og varaforsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×