Erlent

Kastró í þátíð

Fídel Kastró vinstra megin ásamt yngri bróður sínum Raúl Kastró, sem stjórnar landinu meðan stóri bróðir liggur veikur.
Fídel Kastró vinstra megin ásamt yngri bróður sínum Raúl Kastró, sem stjórnar landinu meðan stóri bróðir liggur veikur. MYND/AP

Kúbverjar tala nú æ oftar um leiðtogann veika Fídel Kastró í þátíð, enda hefur hann ekki sést opinberlega frá því í júlílok. Þjóðin hefur ekki fengið að vita hvað ami að leiðtoga hennar eða hvar hann dveljist. Kastró, sem hefur verið við völd í tæplega hálfa öld, sá sér ekki fært að koma fram opinberlega við hátíðarhöld vegna síns eigin áttræðisafmælis nýverið.

"Þeir minnast varla á hann í sjónvarpinu og þegar þeir gera það er það á þann hátt að það er eins og hann sé þegar látinn," sagði Roberto, sem er verktaki á Kúbu í viðtali við fréttamann Reuters.

"Þessi opinbera þögn er til þess að undirbúa þjóðina fyrir dauðann", sagði Walter, sem er listamaður, "en fólkið dýrkar hann og vill fá að vita hvað amar að honum."

Þrátt fyrir að erfitt sé að mæla almenningsálit í ríki sem leyfir aðeins einn flokk og heldur fast um stjórnartaumana á öllum fjölmiðlum, þá kemst fréttamaður Reuters að þeirri niðurstöðu að Kúbverjar séu smátt og smátt að sætta sig við að maðurinn sem hefur stjórnað ríkinu síðan 1959, sé á förum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×