Erlent

Hvetja morðingja vændiskvenna til að gefa sig fram

MYND/AP

Lögreglan í Ipswich sem rannsakar morð á þremur vændiskonum í borginni hvetur morðingja þeirra til að gefa sig fram. „Þú átt augljóslega við vanda að stríða. Hringdu í mig og við tökumst á við málið," sagði yfirmaður rannóknarinnar í ákalli til morðingjans í breskum fjölmiðlum.

Óttast er að morðinginn hafi líf tveggja annarra vændiskvenna á samviskunni en þær hafa ekki haft samband við lögreglu þrátt fyrir ítrekaða beiðnir þar um í fjölmiðlum.

Krufning á einni kvennanna hefur leitt í ljós að hún var kyrkt til dauða en enginn kvennanna þriggja bar merki um að þær hefðu verið beittar kynferðisofbeldi fyrir morðin. Hins vegar beinist rannsóknin meðal annars að því hvort eitrað hafi verið fyrir þeim.

Mikill ótti hefur gripið um sig meðal vændiskvenna í Ipswich og hafa sumar þeirra gripið til þess ráðs að ganga með litlar viðvörunarsírenur eða múrsteina í handtöskum sínum sér til varnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×