Erlent

Mistök að ýja að kjarnavopnum Ísraela

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels.
Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels. MYND/AP

Talskona Ehuds Olmerts, forsætisráðherra Ísraels, sagði hann ekki hafa ætlað að segja að Ísraelar ættu kjarnavopn í sjónvarpsviðtali í kvöld. Hann taldi þar upp nafn Ísraels með öðrum kjarnorkuveldum, sem gengur þvert á þá stefnu sem ísraelsk stjórnvöld hafa fylgt undanfarin ár, að neita að gefa upp hvort ríkið eigi kjarnavopn eða ekki.

Nokkrir andstæðingar ríkisstjórnar Olmerts kröfðust þess að hann segði af sér vegna þessara orða en nú eru orðin sögð mistök, Olmert hefði ekki ætlað eða viljað gefa neitt út um hvort Ísrael ætti, hefði nokkurn tíma átt, eða hreinlega langaði yfir höfuð í kjarnavopn.

Spurningin um kjarnavopnabúr Ísraela barst aftur upp á yfirborðið í síðustu viku þegar verðandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Robert Gates, gaf í skyn á fundi með varnarmálanefnd öldungadeildar bandaríska þingsins að Ísraelar ættu kjarnavopn.

Hann sagði að Íranar hefðu ríka ástæðu til að langa í kjarnavopn, þar sem nágrannar þeirra í öllum höfuðáttum ættu slík vopn: Pakistan í austri, Rússar í norðri, Ísraelar í vestri og floti Bandaríkjamanna á Persaflóa í suðri.

Ísraelar eru almennt taldir eina kjarnorkuveldið í Miðausturlöndum og kjarnaoddabúr þeirra talið ríkulegt.

Nánar um ummæli Olmerts úr fréttum fyrr í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×