Erlent

Risatjald reist í heimalandi Borats

Tjaldið mun þekja svæði á við 10 fótboltavelli
Tjaldið mun þekja svæði á við 10 fótboltavelli MYND/Architects' Journal

Forseti Kazakstan, Nursultan Nazarbayev, slær ekki slöku við í uppbyggingu hinnar nýju höfuðborgar landsins á steppunum norðan Baikalvatns. Hann hefur öðru sinni fengið hinn heimsfræga arkitekt Norman Foster, lávarð, til að hanna byggingu í borginni, í þetta skiptið risavaxið tjald, sem verður 150 m hæð, og þekur svæði á við 10 knattspyrnuvelli. Lord Foster teiknaði fyrir nokkru síðan risastóran glerpýramída í borginni, sem hýsir meðal annars Kazakstan-óperuna í kjallaranum. Undir nýja tjaldinu er gert ráð fyrir miðborg með torgum, steinlögðum strætum, skurðum með rennandi vatni, verslanamiðstöðvum og golfvöllum. Í tjaldinu verður sumar allt árið, en á steppunum verður jafnan 30 gráðu frost á vetrum.

Fréttavefur BBC hefur eftir Fettah Tamince, sem fer fyrir Sembol, tyrkneska fyrirtækinu sem reisir tjaldið, að ekkert þessu líkt hafi risið áður og verkfræðilega verði þetta erfitt, en reiknar samt með að það takist að ljúka verkinu á einu ári.

Bygging höfuðborgarinnar hófst 1997 og hefur kostað að minnsta kosti 15 milljarða bandaríkjadollara (1.050 milljarða ISK - jafngildi um 10 Kárahnjúkavirkjana) sumir segja miklu meira. Rúmlega 15 milljónir manna búa í Kazakstan, sem er fyrrum Sovétlýðveldi, ríkt af olíu- og gaslindum. Landið hefur verið talsvert í fréttum að undanförnu vegna kvikmyndarinnar Borat eftir breska háðfuglinn Sacha Baron Cohen.

Fréttaskýringaþátturinn Kompás fjallar að hluta til um Kazakstan í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×