Erlent

Opinberir starfmenn skjóta mótmælaskotum á Gaza

Tvö þúsund og fimm hundruð lögreglumenn í Palestínu þustu í dag inn í byggingu ríkisstjórnarinnar í miðborg Gaza, til að mótmæla því að fá ekki greidd laun. Þeir saka stjórnmálaarm Hamas um að greiða eigin öryggissveitum, en ekki laun hundrað sextíu og fimm þúsund opinberra starfsmanna.

Lögreglumennirnir þustu inn í byggingu ríkisstjórnarinnar í Gaza í dag, en verðir Hamasflokksins hörfuðu eftir að reyna að stöðva inngöngu þeirra. Lögreglumennirnir mótmæltu með því að skjóta upp í loftið og breiddust mótmælin út á götur Gaza, en einnig var mótmælt í borgunum Rafah og Jenin. Stjórnmálaflokkur Hamas hefur verið í alþjóðlegu fjársvelti síðan hann komst til valda fyrir tíu mánuðum, og hefur átt í erfiðleikum með að greiða laun 165 þúsund opinberra starfsmanna. Meðal þeirra eru 80 þúsund lögreglumenn og meðlimir í öryggissveitum, 40 þúsund kennarar og 15 þúsund starfsmenn í heilbrigðisþjónustu. Mótmælendurnir segja Hamas borga sínum eigin öryggissveitum, en ekki öðrum löggæslusveitum. Til að komast hjá banni banka við millifærslum fjármagns inn á reikninga íslamskra vígamanna, hafa leiðtogar Hamas flutt reiðufé í ferðatöskum yfir landamærin frá Egyptalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×