Erlent

Seselj má ekki svelta í hel

Stuðningsmenn Seseljs vilja fá hann heim. Tvær flokkskonur hans halda á mynd af honum.
Stuðningsmenn Seseljs vilja fá hann heim. Tvær flokkskonur hans halda á mynd af honum. MYND/AP

Serbneski öfgaþjóðernissinninn Vojislav Seselj, sem réttað hefur verið yfir við Stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna í Haag, vill ekki þiggja neina læknisaðstoð og er staðráðinn í að svelta til dauða. Stríðsglæpadómstóllinn í Haag hefur hins vegar krafist þess af hollenskum yfirvöldum að þau komi í veg fyrir þá ætlun sakborningsins.

Dómstóllinn fyrirskipaði að Seselj fengi næringu í æð og aðra hjúkrun, "með það að markmiði að vernda heilsu og velferð hins ákærða og hindra dauða hans, að því marki sem slík hjúkrun gangi ekki gegn læknasiðfræði eða alþjóðalögum."

Flokksmenn hans í Serbneska róttæka flokknum tilkynntu í dag að hann vildi engar heimsóknir eða læknisskoðanir, hann vill engan hitta nema prest. Þeir sögðu að hann vilji heldur ekki sjá fjölskyldu sína eða vini, en prestur sem hefur heimsótt hann vikulega mun héðan af heimsækja hann tvisvar í viku. Seselj hefur neitað að borða eða taka lyf í 26 daga en hann hefur þegið vatn að drekka.

Seselj hefur verið fyrir rétti í Haag síðan 2003, ákærður um stríðsglæpi. Hann hefur ítrekað truflað rannsókn og réttarhöld með framíköllum og móðgunum við dómara og lögmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×