Erlent

Vill sýna börnunum upprunaleg landamæri Ísraels

Landamæravörður á landamærum Ísraels.
Landamæravörður á landamærum Ísraels. MYND/AP

Ummæli menntamálaráðherra Ísraels um að kennslubækur eigi að sýna börnum landamæri landsins eins og þau voru fyrir árið 1967 þegar Ísrael lagði undir sig Vesturbakka Jórdanar, Gaza-ströndina, Austur-Jerúsalem og Gólan-hæðirnar. Hægrimenn hafa reiðst mjög þessari tillögu ráðherrans sem segir breytinguna nauðsynlega til að börn skilj sögu landsins.

Landafræðibækur ísraelskra barna sýna nú aðeins landamærin eins og þau eru þegar þessi herteknu svæði eru innlimuð í Ísrael en samkvæmt alþjóðalögum geta þessi svæði ekki talist hluti af landinu, heldur hertekin svæði sem Ísraelar hafa numið á ólöglegan hátt.

Menntamálaráðherrann Yuli Tamir er sögð hafa þegar pantað bækur með nýjum myndum og textum. Hún segir þetta nauðsynlegt til þess að börnin skilji sögu lands síns til fullnustu: "við getum ekki kennt þeim hvað gerðist árið 1967 ef þau vita ekki hvar landamærin eru", sagði hún í samtali við útvarpsstöð hersins í Ísrael.

Engin viðbrögð hafa enn borist frá forsætisráðherranum en tillaga menntamálaráðherrans hefur styggt landnema sem búa á hinum herteknu svæðum, sem eru fyrirferðarmikill þrýstihópur í ísraelskum stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×