Erlent

Heimildarmynd um fanga í Afganistan veldur deilum í Danmörku

MYND/Reuters

Stjórnarandstaðan í Danmörku hefur farið fram á skýringar frá ríkisstjórn landsins vegna upplýsinga sem fram koma í heimildarmynd sem frumsýnd var í Kaupmannahöfn í gær. Myndin heitir Hið leynilega stríð og þar er greint frá því að danskir hermenn í Afganistan hafi í mars árið 2002 afhent Bandaríkjaher 31 stríðsfanga sem síðan hefðu verið pyntaðir.

Fulltrúar fjögurra stjórnarandstöðuflokka hittust í morgun og ræddu málið og í kjölfarið var farið fram á það að ríkisstjórnin gerði hreint fyrir sínum dyrum. Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, vísaði því á bug á vikulegum fundi sínum með blaðamönnum í dag að upplýsingum um málið hefði verið haldið frá þinginu og sagði engar upplýsingar liggja fyrir um það að fangarnir hefðu sætt pyntingum. Hann hefði fengið skriflega yfirlýsingu frá George Bush Bandaríkjaforseta um að allir fangar í Afganistan yrðu meðhöndlaðir í samræmi við ákvæði Genfar-sáttmálans.

Jafnframt sagði hann málið vel þekkt og verið væri að setja það fram á dramatískan hátt. Von er á greinargerð frá ríkisstjórninni vegna málsins innan tíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×