Erlent

Fangelsið ekki nógu fínt fyrir svikahrapp

Peter Foster á Fiji eyjum
Peter Foster á Fiji eyjum MYND/AP

Ástralski svikahrappurinn Peter Foster, sem meðal annars sá um íbúðakaup fyrir forsætisráðherrafrú Bretlands, fékk í dag að flytja sig á lúxushótel á Fiji eyjum, vegna þess að fangelsið þykir of subbulegt.

Foster var handtekinn eftir mikinn eltingaleik lögreglunnar, í síðasta mánuði. Í örvæntingu sinni stökk hann fram af brú, til þess að komast undan, en meiddist á höfði þegar hann lenti á báti sem var að sigla undir brúna. Hann er sakaður um sviksamlega starfsemi á Fiji eyjum.

Foster þessi olli Tony Blair nokkrum vandræðum þegar hann hafði milligöngu um kaup á tveim íbúðum fyrir Cherie Blair, fyrir tveim árum. Ekkert reyndist athugavert við þau viðskipti, en Blair kaus að biðja þjóðina afsökunar á þessu, þegar langur svikaferill Fosters var gerður opinber.

Opinber ákærandi á Fiji eyjum mótmælti því að Foster fengi að flytjast á hótel, en dómarinn sagði að hann ætti ekki annarra kosta völ, þar sem hæstiréttur eyjanna hefði fyrir nokkru úrskurðað að fangelsið stæðist ekki kröfur um hreinlæti og aðbúnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×