Stuart Pearce segist ekki óttast þá síauknu pressu sem á honum er eftir að Manchester City tapaði enn eina ferðina í gær og nú fyrir Chesterfield í enska deildarbikarnum. Þetta var þriðja tap City og 13 ósigur liðsins í síðustu 16 leikjum í það heila.
"Ég er undir miklum þrýstingi núna, en það er ekkert nýtt. Það er alltaf gríðarleg pressa sem fylgir því að vera stjóri í ensku úrvalsdeildinni og ég held að ég standist hana. Ég legg mjög hart að mér í starfi og nú verð ég bara að leggja enn harðar að mér til að hjálpa liðinu að snúa við blaðinu," sagði Pearce, en City færist sífellt nær fallsvæðinu í úrvalsdeildinni.
"Það er alltaf knattspyrnustjórinn sem fær skammirnar ef illa gengur og það er því fyrst og fremst hans að reyna að hrista upp í þessu og hleypa lífi í liðið á ný."