Erlent

Milljónir í pílagrímsgöngu

Áætlað er að um þrjár milljónir múslima séu komnar til Mekka í Sádi-Arabíu í árlega pílagrímsathöfn. Miklar öryggisráðstafanir eru á svæðinu þar sem á fjórða hundrað manna tróðust undir við síðustu athöfn.

Margir hefja pílagrímsferðina með tár í augum, svo mikil hughrif hefur hún á trúaða múslima, enda er þetta ein mikilvægasta trúarathöfn í íslam og ein af fimm meginstoðum trúarbragðanna.

Dagurinn í dag hófst á því að tugþúsundir manna fóru til bæna og íhugunar að Arafat-fjalli, sem er rétt utan við Mekka, þar sem Múhameð spámaður er sagður hafa flutt sína síðustu predikun árið 632. Þar á eftir liggur leiðin til út í eyðimörkina í Mina, þar sem steinum er grýtt í átt að ákveðnum stöðum, en athöfnin er táknmynd fyrir að grýta djöfulinn.

Miklar öryggisráðstafanir eru fyrir þessa athöfn þar sem 360 manns tróðust undir og létust í janúar síðastliðnum. Þetta er sagt hafa byrjað með því að nokkrir pílagrímar hnutu um farangur sem lá fyrir fótum þeirra. Yfirvöld í Sádi-Arabíu segjast taka það hlutverk mjög alvarlega og hafa eytt meira en 70 milljörðum íslenskra króna til að tryggja öryggið á pílagrímsstaðnum Mina.

Aðalatriðið í pílagrímsferðinni Hajj er hins vegar að ganga sjö sinnum rangsælis í kringum Kaaba-bygginguna sem er í miðju Haram-moskunnar í Mekka. Kaaba er helgasta vé múslima og er það sem allir múslimar miða við þegar þeir leggjast á bæn og snúa í átt að Mekka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×