Erlent

Saddam tekinn af lífi án tafar

Saddam Hússein í réttarsal.
Saddam Hússein í réttarsal. MYND/AP

Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, sagði í dag að aftöku Saddams Hússeins yrði ekki frestað, né yrði dómurinn endurskoðaður. Þetta eru fyrstu orð hans um málið eftir að kröfu Saddams um áfrýjun var hafnað. Háttsettur embættismaður innan íraska varnarmálaráðuneytisins sagði í morgun að Saddam yrði ekki líflátinn fyrr en eftir mánuð, í fyrsta lagi.

Bandaríska forsetaembættið sagði í gærkvöldi að Saddam yrði líklega líflátinn á næstu dögum, jafnvel á morgun. Lögfræðingur Saddams sagði í morgun að hann hefði kvatt bræður sína í gær á þann hátt að hann búist ekki við að sjá þá á ný.

Ráðuneytið ræður því hvenær dómnum verður framfylgt. Það segir að Saddam verði ekki hengdur næsta mánuðinn, ekki fyrir 26. janúar. Einnig var því neitað að Bandaríkjamenn væru búnir að afhenda Írökum Saddam til varðhalds og sagði allt enn óbreytt í þeim efnum.

Þá sagði lögfræðingur Saddams einnig að hann hefði fengið skilaboð um að sækja persónulegar föggur Saddams því hann væri kominn í gæslu Íraka, frá Bandaríkjamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×