Erlent

Forstjóri Yukos undir grun

Leonid Nevzlin rússneskir saksóknarar segja fyrrum forstjóra Yukos grunaðan um morð á fyrrum KGB njósnara.
Leonid Nevzlin rússneskir saksóknarar segja fyrrum forstjóra Yukos grunaðan um morð á fyrrum KGB njósnara. MYND/AP

Rússneskir saksóknarar hafa nafngreint fyrrverandi forstjóra olíurisans Yukos, Leonid Nevzlin, sem einn þeirra sem liggja undir grun í tengslum við morðið á fyrrverandi KGB njósnara, Alexander Litvinenko. Litvinenko lést úr pólón-210 geislaeitrun í Bretlandi í nóvember.

Að sögn skrifstofu ríkissaksóknara eru Nevzlin og aðrir eigendur Yukos grunaðir um að hafa fyrirskipað morðið, sem og að eitra fyrir öðrum fyrrum rússneskum leyniþjónustumanni, Dímítrí Kovtun.

Nevzlin flúði Rússland árið 2003 eftir gjaldþrot Yukos í kjölfar herferðar stjórnvalda gegn fyrirtækinu. Hann fór til Ísraels þar sem hann nú býr í útlegð.

Í síðasta mánuði sagði Nevzlin blaðamönnum AP-fréttastofunnar að Litvinenko hefði látið sig hafa skjal tengt Yukos og sagðist telja að morðið væri tengt rannsókn hans á gjaldþroti fyrirtækisins.

Ættingjar og félagar Litvinenkos segja grun saksóknaranna á engu byggðan, því þeir telja að rússnesk yfirvöld standi að baki morðinu. Á dánarbeði sínum sakaði Litvinenko sjálfur Vladimír Pútín Rússlandsforseta um að bera ábyrgð á veikindum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×