Erlent

Lægði öldurnar í bandarísku samfélagi

Gerald og Betty ford Árið 1996 var þeim hjónum ákaft fagnað á þingi Repúblikanaflokksins.
Gerald og Betty ford Árið 1996 var þeim hjónum ákaft fagnað á þingi Repúblikanaflokksins. MYND/AP

Gerald Ford tók við forsetaembætti Bandaríkjanna eftir að Richard Nixon hraktist frá völdum vegna Watergate-málsins og gegndi lykilhlutverki við að koma á sáttum í bandarísku þjóðfélagi á ný eftir allt umrótið í kringum hinn umdeilda forvera sinn.

Ford þótti hins vegar gjörólíkur Nixon, öfgalaus bæði í skoðunum og verkum og blátt áfram í framkomu sinni. Fréttaskýrendur segja hann hafa verið nákvæmlega það sem bandaríska þjóðin þurfti á að halda til þess að ná sér aftur á strik bæði eftir áfallið sem Nixon-hneykslið skildi eftir sig, en ekki síður eftir Víetnamstríðið, sem klofið hafði þjóðina í tvær andstæðar fylkingar.

Ford var eini forseti Bandaríkjanna sem hvorki var kosinn forseti né varaforseti Bandaríkjanna, en hann hafði gegnt forsetaembættinu í nærri tvö og hálft ár og þar á undan verið varaforseti.

Nixon skipaði hann varaforseta sinn í október árið 1973 eftir að Spiro Agnew þurfti að segja af sér vegna skattsvika, sem hann varð uppvís að og hlaut dóm fyrir. Þegar Nixon neyddist síðan sjálfur til að segja af sér árið eftir settist Ford í forsetastólinn, og sagt hefur verið að hann hafi breytt embættinu meira en það breytti honum.

Ford þótti ekki atkvæðamikill á valdatíð sinni, en um hann ríkti almenn sátt í Bandaríkjunum.

Eitt umdeildasta verk Fords var hins vegar að veita Nixon náðun aðeins tæpum mánuði eftir forsetaskiptin, sem varð til þess að aldrei var hægt að ákæra Nixon fyrir neina glæpi í tengslum við Watergate-málið.

Almennt er talið að þetta embættisverk Fords hafi jafnframt orðið til þess að hann tapaði í forsetakosningum árið 1976, þegar demókratinn Jimmy Carter vann sigur.

Ford var 93 ára gamall þegar hann lést á heimili sínu í Kaliforníu á þriðjudaginn og hafði þá lifað lengur en nokkur annar forseti Bandaríkjanna. Eiginkona hans, Betty Ford, sendi frá sér tilkynningu um andlát hans seint á þriðjudagskvöldið.

George W. Bush, núverandi Bandaríkjaforseti, fór lofsamlegum orðum um Ford í gær eftir að fréttir bárust af andláti hans. „Bandaríska þjóðin mun ávallt dást að skyldurækni Geralds Ford, persónuleika hans og hve virðulega hann leysti störf sín af hendi," sagði Bush í yfirlýsingu í gær.

Ford tók við forsetaembættinu eftir að Nixon hraktist frá völdum. Þessi mynd er tekin árið 1968 þegar Repúblikanaflokkurinn hafði valið Nixon til að verða forsetaframbjóðandi sinn, en Ford var þá leiðtogi flokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.MYND/AP


.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×