Erlent

Samvinnan endurskoðuð

Þessar írönsku skólastúlkur styðja stefnu ríkisstjórnar sinnar í kjarnorkumálum.
Þessar írönsku skólastúlkur styðja stefnu ríkisstjórnar sinnar í kjarnorkumálum. MYND/AP

Íranska þingið samþykkti í gær að endurskoða tengsl sín við Alþjóðakjarnorkumálastofnun Sameinuðu þjóðanna, IAEA. Óttast stjórnmálaskýrendur að þetta þýði að írönsk stjórnvöld muni þá minnka til muna samvinnu við stofnunina.

Ákvörðun þingsins kom fjórum dögum eftir að öryggisráð SÞ samþykkti einróma að beita skyldi Írana efnahagslegum refsiaðgerðum fyrir að neita að hætta að auðga úran. Vestræn ríki með Bandaríkin í fararbroddi, telja Írana ætla sér að vinna kjarnorkuvopn úr auðgaða úraninu, en Íranar hafa hins vegar staðfastlega haldið fram að framleiðsla þeirra sé eingöngu í friðsamlegum tilgangi og að hún verði notuð til að búa til rafmagn. Jafnframt sjá Íranar kjarnorkuáætlun sína sem tákn um tæknilegar framfarir landsins, enda er samstaða meðal allra stjórnmálaflokka landsins og flestra landsmanna um að halda henni til þrautar.

Refsiaðgerðir öryggisráðsins felast í banni við því að tækniþekking og tæki sem nota má við kjarnorkuframleiðslu verði keypt frá eða selt til Írans. Jafnframt var fé tíu íranskra fyrirtækja og tólf Írana fryst í erlendum bönkum.

Háttsettir klerkar hafa ítrekað hvatt stjórnina til að skera á öll bönd við IAEA, ef öryggisráðið myndi ákveða að beita refsiaðgerðum, líkt og nú hefur verið gert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×