Erlent

Mannránið hefndaraðgerð?

Talið er að ránið á sendiherra Egyptalands í Írak í gærkvöldi hafi verið hefndaraðgerð. Hann hafði aðeins verið nokkrar vikur í starfi. Atburðarás gærdagsins er enn ekki alveg komin á hreint. Haft er eftir egypskum sendiráðsstarfsmanni að sendiherrann, Ihab el-Sharif, hafi verið að kaupa dagblað úti á götu í gærkvöldi þegar tvær BMW-bifreiðar, fullar af vopnuðum mönnum, hafi rennt upp að honum og numið hann á brott. Franska fréttastofan AFP segir hins vegar að honum hafi verið rænt af heimili sínu. Egypska utanríkisráðuneytið hefur ekki staðfest fregnina enn. El-Sharif varð fyrir nokkrum vikum fyrsti fullgildi sendiherra arabaríkis í Írak eftir að Saddam Hussein var komið frá völdum. Raunar höfðu mörg arabalönd kallað sendiherra sína heim eftir að Írakar réðust inn í Kúveit árið 1990. Nú eru fjölmörg arabaríki með sendifulltrúa í landinu en ekkert nema Egyptaland var með fullgildan sendiherra með tilheyrandi réttindum og skyldum. Egyptar buðust til þess í fyrra að aðstoða við þjálfun írakskra öryggissveita og jafnvel er talið að mannránið sé hefnd uppreisnarmanna fyrir það tilboð, þótt það hafi þegar verið dregið til baka. Ekkert hefur heyrst frá mannræningjunum enn.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×