Erlent

Fráfallið hefur pólitísk áhrif

Fráfall Jóhannesar Páls páfa hefur pólitísk áhrif um allan heim og það ekki aðeins í löndum kaþólskra. Ákveðið hefur verið að páfi verði jarðsunginn næstkomandi föstudag.

Kardinálar hvaðanæva að úr heiminum hittust á fundi í Róm í morgun til að skipuleggja útför páfa. Skömmu fyrir hádegi var síðan tilkynnt að útför hans yrði á föstudaginn, klukkan átta fyrir hádegi að íslenskum tíma, og að páfi yrði jarðaður í St. Péturskirkju í Vatíkaninu, líkt og flestir páfar hingað til. Kaþólska kirkjan hefur tilkynnt um níu daga sorgartímabil í tengslum við útförina.

Lík páfa mun síðdegis í dag verða flutt í Péturskirkjuna og verður látið standa þar uppi svo almenningur geti gengið fram hjá því og vottað honum síðustu virðingu sína. Um 200 þúsund manns söfnuðust saman á Péturstorginu í gær og er búist við að gríðarlegur mannfjöldi leggi leið sína í kirkjuna, að minnsta kosti tvær milljónir manna. Öll hótel og gistiheimili eru þegar uppbókuð í Róm en verið er að reyna að gera ráðstafanir til að taka á móti mannfjöldanum, meðal annars með því að skipuleggja gistirými í skólum.

Dauði páfa hefur haft áhrif um allan heim, jafnvel á pólitíska framvindu í löndum sem ekki eru kaþólsk. Þannig hefur Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, ákveðið að fresta því um að minnsta kosti sólarhring að boða til þingkosninga í landinu. Karl Bretaprins er kominn heim úr skíðafríi sínu vegna dauða páfa og jarðaför páfa setur nokkurt strik í brúðkaupsáætlanir Karls því hann og Camilla Parker Bowles ætla einmitt að ganga í hjónaband á föstudaginn. Þá hafa sveitastjórnarkosningar sem nú fara fram á Ítalíu algerlega fallið í skuggann af fráfalli páfans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×