Erlent

Ýmist sagður með meðvitund eður ei

Misvísandi yfirlýsingar berast um heilsu Jóhannesar Páls páfa. Hann er ýmist sagður með meðvitund eður ei og kardínálar segja hann við dauðans dyr.

„Kristur mun opna himnahliðin í nótt og hleypa páfa inn,“ sögðu talsmenn Páfagarðs í gærkvöldi en neituðu fregnum þess efnis að páfi væri þá þegar látinn. Hann lifir enn, en þýski kardínálinn Joseph Ratzinger segir páfa ljóst að hann eigi stefnumóti við Drottinn.

Í morgun sagði Joaquin Navarro-Valls, talsmaður Páfagarðs, að páfi hefði virst missa meðvitund í morgun en væri alls ekki í dauðadái og hefði verið með meðvitund í gærkvöldi þvert á yfirlýsingar gærdagsins þegar sagt var að hann væri meðvitundarlaus. Þá var sagt að líffæri hans gæfu sig, andardrátturinn væri mjög grunnur og blóðþrýstingurinn vart mælanlegur.

Nú segir Navarro-Valls páfa opna augun og tala en að hann virðist sofa þess á milli. Achille Silvestrini kardínál, heimsótti páfa í morgun og sagði hann enn þekkja fólk. Læknar páfans hafa hins vegar gefið upp alla von og segja ekkert hægt að gera honum til bjargar.

Í gærkvöldi greindu ítalskir fjölmiðlar frá því að páfi væri látinn. Hið virta dagblað Corriere della Sera lagði forsíðu fréttavefjar síns undir þá frétt sem talsmenn Páfagarðs vísuðu á bug um tuttugu mínútum síðar.

Þúsundir héldu til á Péturstorginu í Róm í alla nótt og báðu fyrir páfa, sungu, dönsuðu og klöppuðu. Kaþólikkar um allan heim gera slíkt hið sama og meira að segja í ríkjum þar sem kirkjan er ekki vel séð, eins og í Kína og á Kúbu, hefur verið greint frá líðan páfans og trúuðum gefið svigrúm til að biðja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×