Erlent

Ár frá gíslatökunni í Beslan

Í dag er ár frá því að uppreisnarmenn réðust inn í grunnskóla í Beslan í Rússlandi og tóku þrettán hundruð manns í gíslingu. Gíslatökunni lauk þegar rússneskar öryggissveitir réðust inn í skólann, með þeim afleiðingum að þrjú hundruð og þrjátíu manns létust, þar af meira en helmingurinn börn. Bjöllur hringdu í Beslan upp úr klukkan níu í morgun, þegar nákvæmlega ár var liðið frá því að tsjetsjenskir uppreisnarmenn réðust inn í skólann og tóku alla sem voru inni í honum í gíslingu. Þrettán hundruð manns voru í haldi uppreisnarmannanna í þrjá daga, eða allt þangað til að rússneskar öryggissveitir réðust inn í skólann og blóðbaðið upphófst. Ættingjar þeirra sem létust og slösuðust í Beslan komu saman við skólann í dag og lögðu þar blómsveigi og kveiktu á kertum. Þriggja daga röð atburða fer nú af stað í Beslan til minningar um fórnarlömbin. Íþróttasalur skólans er orðinn að minningarreit og hann er þakinn ljósmyndum af þeim sem létust. Sorgin liggur enn eins og mara á íbúunum í Beslan og margar mæður klæðast enn bara svörtu. Þá er ekki síður reiði í loftinu, en aðstandendur fórnarlambanna telja sig ekki enn hafa fengið skýringar á því af hverju gíslatakan endaði með því að öryggissveitir óðu inn og af hverju ekki var reynt að semja við uppreisnarmennina. Margir kenna yfirvöldum um hörmungarnar og til marks um það verður Vladimír Pútín Rússlandsforseta ekki boðið að vera viðstaddur minngingaratburðina næstu daga. Hann hélt í morgun mínútu þögn með nemendum háskólans í Krasnódar, þar sem hann hélt ávarp. Á föstudaginn kemur fer hópur mæðra til Kremlinar á fund Pútíns, sem væntanlega fær þar fjöldann allan af óþægilegum spurningum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×