Erlent

Fjórmenningarnir leiddir í gildru?

Grunur leikur á að hryðjuverkamennirnir sem sprengdu sig í loft upp í London í síðustu viku, hafi verið leiddir í gildru. Þetta kemur fram í norska dagblaðinu Aftenposten. Í blaðinu segir að skipuleggjendur árásanna, sem taldir eru hafa flúið land, hafi leitt mennina í gildru, þeir hafi ekki ætlað að drepa sjálfa sig heldur ætlað að koma sprengjunum fyrir og síðan að flýja. Lögreglan í Bretlandi hefur birt mynd úr eftirlitsmyndavél sem sýnir mennina fjóra. Á myndinni koma mennirnir til lestarstöðvarinnar í Luton, stuttu áður en árásirnar voru gerðar. Mennirnir voru allir með stóra bakpoka og tveir þeirra voru með derhúfur. Mennirnir hittust á brautarstöðinni í Luton, þaðan sem þeir héldu til King's Cross þar sem einnig náðist mynd af þeim. Fyrsta sprengingin varð í neðanjarðarlest sem var að fara frá Liverpool Street stöðinni, önnur sprengja á milli King´s Cross og Russell Square stöðvarinnar, þriðja sprengjan sprakk við Edgware Road lestarstöðina og sú fjórða í tveggja hæða strætisvagni í Upper Woburn Place. Eiginkona eins mannanna fjögurra sendi í gærkvöld frá sér yfirlýsingu þar sem hún segist fordæma árásirnar harðlega þar sem 55 létu lífið og um 700 særðust, Hún sagði mann sinn hafa verið góðan og ástríkan eiginmann og frábæran föður en hvatti þó alla sem byggju yfir upplýsingum að hjálpa lögreglu við að útrýma hryðjuverkamönnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×