Erlent

Glæpir gegn mannkyni staðfestir?

Fjöldagröf fannst í norðurhluta Íraks og er talið að þar sé að finna hundruð og jafnvel þúsundir líka. Sum þeirra eru af börnum sem halda á leikföngunum sínum. Líklegt er talið að þetta leiði til þess að Saddam Hússein verði sakfelldur fyrir glæpi gegn mannkyni. Rannsóknarmenn vinna nú að því að grafa upp líkamsleifar úr fjöldagröfunum sem fundust nálægt þorpinu Hatra í Norður-Írak. Meðal þess sem fundist hefur eru lík af fóstrum allt niður í átján til tuttugu vikna gömul og ungabörn sem halda dauðahaldi í leikföngin sín. Viðmælandi Reuters segir grafirnar augljóslega hafa verið notaðar oftar en einu sinni til að grafa lík og að svo virðist sem bæði konur og börn hafi verið tekin þar af lífi, án þess að nokkur augljós skýring finnist. Rannsóknarmennirnir, sem margir hverjir unnu við að grafa upp fjöldagrafir eftir stríðin á Balkanskaga, segjast aldrei áður hafa séð neitt þessu líkt. Fólkið hafi verið skotið á staðnum og líkunum síðan ýtt með jarðýtum ofan í grafirnar. Grafirnar eru taldar sanna ofsóknir gegn Kúrdum sem drepnir voru í þúsunda tali í valdatíð Saddams Hússeins í lok níunda áratugarins. Hermt er að þrjú hundruð þúsund manns hafi horfið með dularfullum hætti í valdatíð Saddams og óttast að margir hafi endað í viðlíka gröfum. Hann var jafnframt sakaður um þjóðarmorð á Kúrdum. Saddam Hússein verður færður fyrir stríðsglæpadómstól á næsta ári þar sem hann mun svara fyrir glæpi gegn mannkyninu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×