Erlent

Auknar líkur á aðild Tyrkja

Líkur á að Evrópusambandið hefji aðildarviðræður við Tyrki þykja heldur hafa aukist eftir fund Recep Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, og Günther Verheugen, sem fer með stækkunarmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. "Þær fullvissanir sem ég fékk gera mér kleift að gera mjög skýrar tillögur," sagði Verheugen, sem gefur skýrslu í næsta mánuði um hvort hefja eigi aðildarviðræður við Tyrki. Hann vildi ekki segja hverjar tillögur sínar yrðu en þó mátti ráða af orðum hans að þær yrðu á þann veg að hefja ætti viðræður við Tyrki. "Það eru ekki fleiri hindranir í veginum núna," sagði Verheugen eftir að Erdogan hét því að fá samþykktar lagabreytingar um breytingar á refsi- og dómslöggjöf Tyrklands. Slíkar umbætur eru nauðsynlegar til að Evrópusambandið samþykki að hefja viðræður við Tyrkland. Erdogan sagði að boðað yrði til sérstaks aukafundar í tyrkneska þinginu á sunnudag til að samþykkja umbæturnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×