Erlent

Þrjú höfuðlaus lík í Bagdad

Þrjú höfuðlaus lík fundust norður af Bagdad, höfuðborg Íraks, í morgun. Ekki er búið að bera kennsl á líkin en talið er að þau séu af útlendingum. Írakska lögreglan fann líkin sem öll eru karlkyns.  Íraska lögreglan fann líkin á vegarspotta sem liggur út úr höfuðborginni til norðurs. Þau voru í nælonpokum og höfðu höfuðin verið bundin við bakið. Fregnum ber ekki saman um hvort líkin eru af Vesturlandabúum eða aröbum. Íraska lögreglan segist telja að þetta séu útlendingar en haft er eftir talsmanni Bandaríkjahers að þetta séu að öllum líkindum Írakar. Svo virðist sem mennirnir hafi verið myrtir fyrir nokkrum dögum enda eru þeir óþekkjanlegir. Allir þrír eru þó með húðflúr og það er helsta vísbending lögreglu til að reyna að komast að því hverjir þetta eru. Talið er að tugum útlendinga sé haldið í gíslingu uppreisnarmanna í Írak. Þannig er margra flutningabílstjóra frá nálægum löndum saknað meðal annars frá Tyrklandi, Jórdaníu, Egyptalandi og Kúveit. Uppreisnarhóparnir hafa stundum leikið þann leik að myrða þessa menn og höggva af þeim höfuðin ef ekki er orðið við kröfum þeirra. Meðal útlendinga í haldi uppreisnarhópa eru tveir franskir blaðamenn, karlmenn og tvær konur, hjálparstarfsmenn frá Ítalíu. Alda ofbeldis hefur gengið yfir Írak undanfarna daga og hafa að minnsta kosti 150 Írakar látist í ýmis konar átökum, sprengjum og óeirðum á síðustu þremur sólarhringum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×