Erlent

Níutíu féllu umhverfis Bagdad

Bandarískir hermenn felldu um níutíu uppreisnarmenn í borgum umhverfis Bagdad í nótt en allt var með kyrrum kjörum í Najaf þar sem sjítaklerkurinn Muqtada al-Sadr er að reyna að semja vopnahlé. Hörðustu bardagarnir voru í borgunum Samarra og Hilla. Í Samarra féllu um fimmtíu af stuðningsmönnum al-Sadrs og í Hilla voru fjörutíu stuðningsmenn hans felldir. Ekki er getið um mannfall í liði Bandaríkjamanna. Hins vegar var allt með kyrrum kjörum í borginni Najaf þar sem al-Sadr er að reyna að semja um vopnahlé, enda búið að stráfella liðsmenn hans þar. Klerkurinn býðst til þess að hætta bardögum í borginni gegn því að Bandaríkjamenn flytji herlið sitt þaðan. Bandaríkjamenn eru nokkuð tregir til þess enda hafa þeir áður gert slíka samninga við Muqtada sem hann hefur jafnharðan svikið. Ekki er þó víst að Bandaríkjamenn komist hjá því að semja við klerkinn því Najaf er ein helgasta borg Íraka og þeim er mjög illa við að þar sé barist. Helgidómar borgarinnar hafa orðið fyrir nokkrum skemmdum því það er í þeim sem Muqtada holar sér niður þegar í harðbakka slær. Myndin er frá Najaf í morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×