Shrewsbury Town kom til baka og tryggði sér leik á Anfield | Sjáðu mörkin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jason Cummings fagnar fyrra marki sínu í dag.
Jason Cummings fagnar fyrra marki sínu í dag. Vísir/Getty

Shrewsbury Town tókst á einhvern ótrúlegan hátt að ná í 2-2 jafntefli gegn Evrópumeisturum Liverpool eftir að hafa lent 2-0 undir í dag. Lokatölur 2-2 og ljóst að liðin þurfa að mætast aftur á Anfield.

Fyrir leik var reiknað með öruggum sigri Liverpool en Shrewsbury situr í 16. sæti í C-deildinni á meðan Liverpool er óstöðvandi á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Jürgen Klopp stillti upp frekar ungu og óreyndu liði í dag, eðlilega miðað við álagið sem hefur verið á Liverpool undanfarið.

Adrian, Dejan Lovren, Joel Matip, Fabinho og Divock Origi voru svona þekktustu nöfnin í byrjunarliði Liverpool í dag. Takumi Minamino, sem gekk í raðir félagsins fyrr í mánuðnum, hóf leikinn sem fremsti maður.

Fáir þekktir leikmenn voru í byrjunarliði Shrewsbury Town en stuðningsmenn Manchester United könnuðust ef til vill við nöfn á borð við Donald Love, Ro-Shaun Williams og Sean Goss. Þá var Jason Cummings, fyrrum framherji Peterborough United, á varamannabekknum en sá átti heldur betur eftir að koma við sögu í dag.

Hetjan úr 1-0 sigrinum á Everton í síðustu umferð, Curtis Jones, skoraði eina mark fyrri hálfleiks eftir að hafa tekið vel á móti frábærri sendingu Pedro Chirivella sem stakk knettinum snyrtilega í gegnum vörn heimamanna á 15. mínútu leiksins.

Evrópumeistarar Liverpool gátu þó þakkað spænska markverði sínum Adrian fyrir að vera 1-0 yfir í hálfleik en hann bjargaði þeim

er Fabinho tapaði knettinum á miðjunni og leikmaður Shrewsbury Town slapp einn í gegn.

Gestirnir frá Liverpool tvöfölduðu svo forystuna strax í upphafi síðari hálfleiks. Donald Love, fyrrum leikmaður Man Utd og Sunderland, varð þá fyrir því óláni að skora einkar slysalegt sjálfsmark.

Héldu margir að hér væri leikurinn einfaldlega úti en aðeins fimm lið hafa náð að skora fleiri en eitt mark gegn Liverpool í vetur. Þá var komið að þætti Jason Cummings en hann kom inn af varamannabekk Shrewsbury á 60. mínútu. Fimm mínútum síðar fengu heimamenn víti sem Cummings skoraði af öryggi úr. Staðan því orðin 2-1 og heimamenn áttu allt í einu smá von á að tryggja sér annan leik gegn Evrópumeisturum Liverpool, og það á Anfield.

Tíu mínútum eftir að Cummings minnkaði muninn var einn langur sendur fram úr varnarlínu Shrewsbury. Sean Walley skallaði boltann niður fyrir Cummings sem lék inn á vítateig Liverpool þar sem hann lagði boltann snyrtilega í netið og allt ætlaði um koll að keyra á Montgomery Waters Meadow, heimavelli liðsins.

Klopp var ekki skemmt og sendi hann þá Alex Oxlade-Chamberlain, Mo Salah og Roberto Firmino en þeim tókst ekki að setja mark sitt á leikinn. Lokatölur 2-2 og ljóst að liðin þurfa að mætast aftur. 

Hreint út sagt ótrúleg úrslit fyrir C-deildarlið Shrewsbury sem fá nú ekki aðeins að mæta á Anfield heldur fær félagið eflaust tekjur sem jafnast á við heilt tímabil út frá þessum eina leik.


Tengdar fréttir

„Hann er eins og Terminator eða Sauron með hringinn“

Svona lýsa Tim Spiers og James Pearce, blaðamann The Athletic, hinu eldfljóta og nautsterka afmælisbarni dagsins, Adama Traore. Jürgen Klopp, þjálfari Liverpool, fór fögrum orðum um Traore eftir leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni nýverið.

Maguire maður leiksins er Man Utd valtaði yfir Tranmere

Harry Maguire, miðvörður Manchester United, var besti leikmaður vallarins er liðið vann Tranmere Rovers örugglega 6-0 á útivelli í FA bikarnum í dag. Maguire gerði sér lítið fyrir og skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið með þrumuskoti fyrir utan teig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira