Íslenski boltinn

Grótta deildarmeistari í Inkasso

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gróttumenn fagna marki í sumar
Gróttumenn fagna marki í sumar vísir/vilhelm
Grótta er deildarmeistari í Inkassodeild karla eftir stórsigur á Haukum í lokaumferðinni í dag á sama tíma og Fjölnir tapaði fyrir Keflavík.

Nýliðar Gróttu þurftu stig á móti Haukum til þess að tryggja sæti sitt í efstu deild og þeir gerðu það með stæl.

Orri Steinn Óskarsson kom Gróttu yfir á 30. mínútu og tryggði Gróttu forystu inn í hálfleikinn. Í seinni hálfleik bættu þeir þremur mörkum við og fögnuðu 4-0 sigri.

Til þess að gera daginn enn betri fyrir Gróttu þá tapaði Fjölnir fyrir Keflavík suður með sjó sem þýddi að Grótta fór á topp deildarinnar og endar sem Inkassodeildarmeistari.

Eina mark leiksins í Keflavík gerði Þorri Mar Þórisson á 43. mínútu. Hann þrumaði boltanum í netið eftir fyrirgjöf inn á teiginn og tryggði Keflavík sigur.

Tap Hauka á Seltjarnarnesi þýddi að þeir fylgja Njarðvík niður í aðra deild þar sem Magni, Þróttur og Afturelding náðu öll í þau stig sem þau þurftu til þess að halda sér uppi.

Þróttur og Afturelding mættust í fallbaráttuslag sem stóð kannski ekki alveg undir nafni en gerði sitt fyrir bæði lið.

Ekkert mark var skorað í leiknum, Þróttur náði með stiginu að jafna Hauka að stigum og þeirra markatala er betri en Haukanna.

Magni var með 22 stig, líkt og Haukar, en slakari markatölu. Magnamenn náðu hins vegar að halda aftur af nágrönnum sínum í Þór fyrir norðan, gerðu markalaust jafntefli og Magni endar því með 23 stig.

Úrslit lokaumferðar Inkassodeildar karla:

Þór - Magni 0-0

Þróttur - Afturelding 0-0

Víkingur - Njarðvík 4-2

Grótta - Haukar 4-0

Keflavík - Fjölnir 1-0

Leiknir - Fram 2-1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×