Umfjöllun og viðtöl: Víkingur - Breiðablik 3-1 | Víkingar í bikarúrslit í fyrsta sinn 48 ár

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Víkingar fagna í leikslok.
Víkingar fagna í leikslok. vísir/óskaró
Víkingur lagði Breiðablik 3-1 í Víkinni í kvöld í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. Gestirnir úr Kópavogi komust yfir á 35. mínútu þegar Thomas Mikkelsen skoraði úr vítaspyrnu. Óttar Magnús Karlsson jafnaði metin með stórkostlegu marki beint úr aukaspyrnum fimm mínútum síðar og Nikolaj Hansen skoraði fjórða bikarleikinn í röð undir lok fyrri hálfleiks.

Staðan 2-1 í hálfleik en í þeim síðari skoraði Guðmundur Andri Tryggvason á 70. mínútu og gulltryggði farseðil Víkinga í sinn fyrsta bikarúrslitaleik síðan árið 1971.

Fyrri hálfleikur var einkar rólegur framan af þó svo að Kári Árnason hafi hent sér í eina glæfralega tæklingu á Gísla Eyjólfsson. Það var því nokkuð óvænt þegar tíu mínútur lifðu fyrri hálfleiks að gestirnir úr Kópavogi fengu dæmda vítaspyrnu þegar Thomas Mikkelsen féll í teignum.

Davíð Ingvarsson hafði þá átt skot sem breytti um stefnu af varnarmanni og virtist sem Mikkelsen væri að fara renna knettinum í netið þegar Halldór Smári Sigurðsson flæktist í honum og sá danski féll. Þorvaldur Árnason benti umsvifalaust á vítapunktinn.

Mikkelsen sjálfur fór á punktinn og skoraði rétt svo en Þórður Ingason lenti í raun ofan á boltanum sem skaust upp í netið. Markvörðurinn einkar óheppinn þar.

Skömmu síðar bjargar Gunnleifur Gunnleifsson gestunum þegar Guðmundur Andri var sloppinn í gegn eftir frábæran undirbúning Óttars Magnúsar. Gunnleifur var fljótur út og máði að slá knöttinn frá áður en Guðmudnur náði skoti að marki.

Það var svo aðeins fjórum mínútum síðar þegar heimamenn fengu aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig þegar Höskuldur Gunnlaugsson sparkaði í höfuð Júlíusar Magnússonar – sem var þó kominn með höfuðið full neðarlega til að skalla knöttinn.

Óttar Magnús skoraði af svipuðu færi gegn ÍBV á dögunum úr aukaspyrnu og endurtók leikinn í kvöld. Spyrnan var fullkomin, fór yfir ysta mann í veggnum og flaug í slánna og inn alveg upp við samskeytin. Algjörlega óverjandi fyrir Gunnleif í marki Breiðabliks og staðan orðin 1-1.

Það var svo alveg í blálok fyrri hálfleiks sem heimamenn komust yfir. Nikolaj Hansen, sem hefur skorað í öllum bikarleikjum Víkinga í sumar, slapp þá óvænt í gegn eftir frábæra sendingu Júlíusar. Blikar vildu rangstöðu en Hansen lét það ekki á sig fá og lagði knöttinn utanfótar með hægri fæti alveg út við stöng. Frábær afgreisla hjá þeim danska og staðan orðin 2-1. Blikar tóku miðju og Þorvaldur flautaði til hálfleiks um leið.

Síðari hálfleikur var frekar rólegur framan af og lítið um færi en þegar tæplega 20 mínútur voru til leiksloka gerðu Víkingar út um leikinn. Þeir léku knettinum þá frá vinstri til hægri yfir á Davíð Örn Atlason sem átti magnaða fyrirgjöf á kollinn á Guðmund Andra sem stangaði hann af alefli í netið innan úr markteig. Staðan orðin 3-1 og ljóst að Víkingar væru svo gott sem komnir í sinn fyrsta bikarúrslitaleik síðan 1971.

Eftir þetta lögðust Víkingar aftur og Blikar reyndu af veikum mætti að minnka muninn. Það verkefni varð nær ómögulegt þegar Elfar Freyr Helgason fékk að sjá rautt þegar átta mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma eftir skelfilega tæklingu aftan í Ágúst Eðvald Hlynsson.

Elfar Freyr ákvað í kjölfarið að rífa rauða spjaldið af Þorvaldi og henda því í jörðina. Lítið markvert gerðist eftir það og eftir sex mínútna uppbótartíma var ljóst að Víkingar væru á leið á Laugardalsvöll þann 14. september.

Af hverju unnu Víkingar?

Af því þeir eru með Óttar Magnús Karlsson og Guðmund Andra Tryggvason. Tvímenningarnir voru frábærir í fremstu víglínu hjá Víkingum í dag. Þá voru Víkingar mjög klókir í leiknum og spiluðu í raun frábæran leik á meðan Blikar áttu ekki sinn besta dag.

Hverjir stóðu upp úr?

Áðurnefndir Guðmundur og Óttar voru frábærir. Sama má í raun segja um alla varnarlínu Víkinga en Davíð Örn lagði upp mark, Halldór Smári var frábær fyrir utan það þegar hann flæktist í Mikkelsen í vítaspyrnunni. Þá voru Dofri og Sölvi, ásamt Kára, öruggir í öllum sínum aðgerðum.

Þá verður að nefna Arnar Gunnlaugsson en hann breytti um leikkerfi fyrir leik og spilaði 4-4-2 með tígulmiðju. Það svínvirkaði og má segja að það leikkerfi ásamt vinstri fætinum á Óttari Magnúsi hafi skapað þennan sigur. Einnig á bikar Hansen skilið að vera nefndur en hann hefur skorað í öllum bikarleikjum Víkings til þessa.

Hvað gekk illa?

Blikum gekk illa að finna glufur á vörn Víkinga en Þórður þurfti í raun ekki að verja neitt af viti fyrr en í uppbótartíma. Þá virtust Blikar missa hausinn undir lok leiks sem sást best á rauða spjaldinu sem Elfar fékk en hann var ekki eini leikmaður Breiðabliks sem var orðinn pirraður. Það virtist fara einstaklega mikið í taugarnar á þeim hvað Kári Árnason fékk mikla virðingu frá dómara leiksins.

Hvað gerist næst?

Víkingar eru á leiðinni í bikarúrslit í fyrsta skipti í 48 ár. Í deildinni bíða liðanna ærin verkefni en Víkingar heimsækja Meistaravelli og leika við KR. Þá fara Blikar á Hlíðarenda og mæta Íslandsmeisturum Vals.

Arnar er búinn að koma Víkingi í bikarúrslit á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari liðsins.vísir/daníel
Arnar: Breyttum um leikkerfi til að koma þeim á óvart

„Hvað helduru maður?“ sagði kampakátur Arnar Gunnlaugsson eftir að hafa stýrt Víkingum í sinn fyrsta bikarúrslitaleik síðan árið 1971.

Arnar hélt áfram og hrósaði sínum mönnum.

„Þetta var geggjað. Mjög sterkur fyrri hálfleikur sem skóp þennan sigur og í síðari hálfleik vorum við þéttir, gáfum fá færi á okkur en fyrri hálfleikurinn var frábær. Er hrikalega stoltur af strákunum en við vorum virkilega flottir í kvöld gegn mjög sterku liði Blika.“

Víkingar voru í nýju leikkerfi í kvöld en þeir léku 4-4-2 með tígulmiðju. Arnar var einkar hreinskilinn þegar hann var spurður út í hvort það hefði verið til að koma Blikum á óvart eða til að nýta eigin styrkleika.

„Klárlega til að koma þeim á óvart. Þetta er kerfi sem er lítið spilað hérna heima, við æfðum það mjög vel og komum þeim á óvart. Þeir löguðu svo auðvitað að því í seinni hálfleik og voru meira með boltann en við vorum þéttir og skildum sálina okkar eftir út á vellinum í kvöld. Bara geðveikt að klúbburinn sé loksins kominn í úrslitaleik eftir 48 ár og nú er bara að klára dæmið.“

Á sínum tíma voru þau orð látin falla að „ekki væri hægt að vinna neitt með krökkum“ en lið Víkings er meðal annars skipað mjög ungum og efnilegum leikmönnum ásamt margreyndum leikmönnum á borð við Sölva Geir Ottesen og Kára Árnason. Er það blanda sem gæti skilað árangri?

„Þetta er mjög góð blanda. Þetta er farið að minna mig á Skagann þegar við tvíburarnir vorum að koma upp ungir og efnilegir. Þá voru þarna eldri og reyndari leikmenn sem tóku okkur undir arma sína og gerðu okkur að mönnum – það er það sama hérna. Svo eru þessir ungu guttar með gæði en þeir þurfa að skilja það að þeir þurfa að vinna sína skítavinnu út á vellinum og þá skína gæðin í gegn, eins og þeir sýndu í kvöld og hafa sýnt í allt sumar.“

Þá var Arnar spurður út í Óttar Magnús Karlsson en hann skoraði fyrsta mark Víkings í kvöld og hefur nú skorað fjögur mörk í aðeins þremur leikjum.

„Ég meina, þessi aukaspyrna maður – jesús minn almáttugur! Þegar þú ert með svona leikmann sem er með „X-Factor“ í svona leikjum þá skilur þetta bara að. Óttar er búinn að vera frábær síðan hann kom, mjög jákvæður og mjög vandað eintak. Ég er til í að ættleiða hann,“ sagði Arnar glottandi að lokum.

Ágúst hrósaði Víkingum eftir leik.vísir/bára
Ágúst: Víkingarnir áttu þetta fyllilega skilið

„Þeir fá aukaspyrnu sem mér fannst frekar ódýr, hann beygir sig niður, sem þeir skoruðu glæsilegt mark úr. Það er lítið hægt að gera við því,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, eftir leik.

„Svo vorum við frekar ákafir að komast upp völlinn og bæta fyrir það en okkur var refsað undir lok fyrri hálfleiksins,“ sagði Ágúst um hvað hefði gerst síðustu mínúturnar í fyrri hálfleik þegar Víkingar skora tvívegis en Blikar fóru úr því að vera 1-0 yfir á 35. mínútu í 2-1 undir tíu mínútum síðar.

Varðandi seinni hálfleikinn fannst Ágúst Víkingarnir eiga sigurinn skilið.

„Við ætluðum að koma sterkari inn í seinni hálfleik og gerðum það ágætlega en þeir skora svo glæsilegt mark og áttu flottan leik. Víkingsliðið var gott í dag.“

„Nei. Víkingarnir voru öflugir og komust upp með að vera grimmir og áttu þetta fyllilega skilið,“ sagði Ágúst að lokum aðspurður út í hvort hann gæti útskýrt af hverju Blikar hefðu ekki náð upp sínum sókndjarfa leik líkt og undanfarið.

Kári er ánægður að vera kominn í bikarúrslit með sínu uppeldisfélagi.vísir/daníel
Kári: Við erum með nýja hugsjón og nýja leið til að spila

„Þetta er náttúrulega bara draumur sem varð að veruleika. Ég var alltaf að vonast til að þetta myndi gerast þegar ég var hérna heima fyrst en frábært að þetta sé að gerast núna,“ sagði Kári Árnason yfirvegaður eftir leik þegar hann var spurður út í tilfinninguna að vera á leið með uppeldisklúbb sinn í bikarúrslitaleik í fyrsta skipti í 48 ár.

„Það er rosa gaman að taka þátt í þessari uppbyggingu. Við erum með nýja hugsjón og nýja leið til að spila og lekum aðeins af mörkum út af því sem er svolítið erfitt en engu að síður mjög gaman að taka þátt í þessu,“ sagði Kári varðandi uppbygginguna í Víkinni.

Kári var spurður út í leikstíl Víkinga og leikkerfi dagsins en liðið lék 4-4-2 með tígulmiðju sem er nokkuð óvanalegt leikkerfi hér heima.

„Ég er bara þarna til að stöðva sóknir andstæðingana en þetta gengur ágætlega og er „work in progress“ og kemur allt. Við sýnum að getum unnið hvaða lið sem er en við þurfum að hitta á daginn,“ sagði Kári kíminn.

Kári sparaði ekki hrósið á Óttar Magnús Karlsson.

„Þetta er einn af, ef ekki besti, maður deildarinnar í svona standi og ég held það viti það allir í Víkinni að minnsta kosti en hann er að sýna öllum öðrum það líka.“

„Jú að sjálfsögðu er það – að sjálfsögðu,“ sagði Kári að lokum hvort markmiðið í úrslitaleiknum væri ekki að landa blessuðum titlinum.

Óttar Magnús hefur skorað fjögur mörk síðan hann kom aftur til Víkings.vísir/anton
Óttar Magnús: Er í gleðimóki

„Það er erfitt að lýsa því. Ég er í einhverju gleðimóki. Þetta er alveg geggjað og geggjað að vera kominn í úrslitin,“ sagði Óttar Magnús Karlsson um hvernig sér liði eftir leik.

Aðspurður hvort hann hefði búist við svona góðri byrjun þegar hann kom til baka þá var framherjinn knái einkar hreinskilinn.

„Get ekki alveg sagt það en það var gott „vibe“ yfir öllu þegar maður kom heim varðandi leikstílinn og undanúrslitin, allt mjög jákvætt svo ég gæti ekki verið ánægðari með þetta.“

Markmið Víkinga fyrir úrslitaleikinn sjálfan eru svo einföld

„Ætlum bara að gefa allt í þetta og ná titlinum. Það er það eina í stöðunni,“ sagði Óttar að lokum en það er ljóst að varnarlína FH á erfitt verkefni fyrir höndum þegar liðin mætast í úrslitum Mjólkurbikarsins þann 14. septemer.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira