Enski boltinn

Starfsmaður Manchester United fluttur á spítala í Ástralíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Manchester United á æfingu í Perth í Ástralíu.
Leikmenn Manchester United á æfingu í Perth í Ástralíu. Getty/John Peters
Veikindi eins starfsmanns Manchester United voru það alvarleg að hann var fluttur á sjúkrahús í Perth í Ástralíu þar sem liðið er nú í æfingaferð.

Sky Sports og BBC Sport segja frá þessu en staðfesta jafnframt að umræddur aðili sé hvorki knattspyrnustjórinn Ole Gunnar Solskjær né leikmaður í liðinu.

Stöð 9 í Ástralíu sagði frá því að maður á sextugsaldri hafi verið fluttur með sjúkrabíl á Konunglega sjúkrahúsið í Perth frá Crown Towers hótelinu þar sem Manchester United gistir.





Í yfirlýsingu frá Manchester United segir að starfsmaður félagsins hafi veikst um nóttina og það hafi verið ákvörðun liðslæknis félagsins að fara með hann í frekari skoðun á sjúkrahús.

Manchester United kom til Ástralíu á mánudaginn og spila síðan fyrsta undirbúningsleik sinn fyrir tímabilið á móti Perth Glory á morgun.

Ole Gunnar Solskjær fór með 28 manna leikmannahóp í æfingaferðina en liðið spilar einnig við Leeds United áður en félagið heldur norður til Singapúr.

Rauðu djöflarnir spila síðan við Inter Milan og Tottenham International Champions Cup í þessari Asíuferð en síðustu leikirnir á undirbúningstímabilinu eru síðan á móti norska félaginu Kristiansund og svo AC Milan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×