Bandaríski tannlæknirinn Walter Palmer, sem drap ljónið Cecil í Simbabve, segist hafa talið að hann væri á löglegum veiðum og ekki haft hugmynd um að ljónið væri þekkt og í sérstöku uppáhaldi heimamanna.
Hinn 55 ára Palmer segist mikið sjá eftir drápinu. Í frétt Sky News segir að Palmer, sem er frá Minnesota, hafi greitt leiðsögumönnum 50 þúsund Bandaríkjadali, eða um 6,7 milljónir króna, fyrir að drepa ljónið sem er sérstaklega vinsæll í Hwange-þjóðgarðinum.
Cecil var lokkaður frá þjóðgarðinum og skotinn með lásboga. Þá hafi Palmer elt dýrið í um fjörutíu tíma áður en ljónið var drepið með riffli. Cecil var síðar afhöfðaður og fláður.
Palmer segir í samtali við Star Tribune að hann hafi talið að veiðin hafi verið fullkomlega lögleg. Segist hann hafa treyst leiðsögumönnum sínum.
Tannlæknastofa Palmer var lokuð í dag og var miði á hurðinni þar sem vísað var á almannatengslaskrifstofu.
Tannlæknirinn segist sjá eftir ljónadrápinu
Atli Ísleifsson skrifar
