Erlent

„Hættu­legasti maður Noregs“ fannst látinn í fanga­klefa

Kjartan Kjartansson skrifar
Stig Millehaugen var 56 ára þegar hann lést. Hann framdi að minnsta kosti tvö morð á löngum sakaferli og var grunaður um það þriðja.
Stig Millehaugen var 56 ára þegar hann lést. Hann framdi að minnsta kosti tvö morð á löngum sakaferli og var grunaður um það þriðja. Norska lögreglan

Norskur fangi sem afplánaði dóm fyrir morð og var lýst sem hættulegasta manni Noregs fannst látinn í klefa sínum í morgun. Lögregla rannsakar hvernig lát fangans bar að en hann var aðeins 56 ára gamall.

Ekki liggur fyrir hvað dró Stig Millehaugen, einn alræmdasta glæpamann Noregs, til bana. Hann fannst látinn í fangaklefa sínum í Kongsvinger-fangelsinu í Þrándheimi rétt fyrir klukkan átta að norskum tíma í morgun.

Lögreglan segir að lík hans verði krufið og starfsmenn og samfangar Millehaugen sem voru í samneyti við hann verði yfirheyrðir, að því er segir í frétt norska blaðsins VG.

Millehaugen varði nær öllum fullorðinsárum sínum í fangelsi fyrir morð, vopnað rán, þjófnað og bílstuld. Hann var dæmdur til 21 árs fangelsisvistar árið 2012 fyrir að hafa myrt leiðtoga glæpagengis gegn greiðslu.

Millehaugen strauk ítrekað úr fangelsi, síðast árið 2022 þegar hann skilaði sér ekki aftur eftir dagsleyfi. Lýst var eftir honum alþjóðlega og dauðaleit gerð að honum í Noregi.

Þegar Millehaugen strauk úr fangelsi árið 1992 skaut hann fangavörð til bana. Hann hlaut fangelsisdóm fyrir það morð árið 1993. 

Þá hafa norsk yfirvöld grunað Millehaugen um þriðja morðið frá því í fyrra, að þessu sinni á ræningja sem var skotinn til bana í Osló. Millehaugen var í leyfi frá fangelsinu þegar maðurinn fannst myrtur í skógi fyrir utan höfuðborgina. Hann neitaði sök en sagðist þó hafa orðið vitni að drápinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×