Enski boltinn

Sjóð­heitur Dorgu frá í um tíu vikur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Patrick Dorgu fær aðhlynningu í leiknum gegn Arsenal.
Patrick Dorgu fær aðhlynningu í leiknum gegn Arsenal. getty/Mike Egerton

Patrick Dorgu, sem hefur skorað í síðustu tveimur leikjum Manchester United, er meiddur aftan í læri og verður frá í um tíu vikur.

Dorgu meiddist í 2-3 sigri United á Arsenal á Emirates á sunnudaginn. Dorgu skoraði annað mark Rauðu djöflanna með frábæru skoti fyrir utan teig sem fór í slána og inn.

Meiðslin sem Dorgu varð fyrir í leiknum í fyrradag munu halda honum frá keppni í nokkurn tíma samkvæmt frétt The Athletic. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hversu löng fjarvera Dorgus verður en gert er ráð fyrir að hún verði um tíu vikur.

Dorgu hefur spilað á vinstri kantinum í báðum leikjum United undir stjórn Michaels Carrick. Hann skoraði annað mark liðsins í 2-0 sigrinum á Manchester City um þarsíðustu helgi og fylgdi því svo eftir með því að skora á Emirates á sunnudaginn.

Danski landsliðsmaðurinn gæti misst af allt að átta leikjum með United sem er í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Hinn 21 árs Dorgu hefur leikið 22 af 23 leikjum United í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu, skorað þrjú mörk og gefið þrjár stoðsendingar.

Næsti leikur United er gegn Fulham á Old Trafford á sunnudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×