Erlent

Trump fer mikinn á Truth Social og virðist ætla sér Kanada

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bandaríkjaforseti birti þessa mynd á Truth Social nú í morgun.
Bandaríkjaforseti birti þessa mynd á Truth Social nú í morgun.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt áfram ögrunum sínum í nótt og birti nú í morgunsárið mynd af sér, JD Vance varaforseta og Marco Rubio utanríkisráðherra að nema land á Grænlandi.

Þá birti hann aðra mynd sem sýnir hann ræða við leiðtoga Evrópu í Hvíta húsinu en á stóru korti fyrir framan þá eru Venesúela, Grænland og Kanada merkt bandaríska fánanum. 

Báðar myndir eru augljóslega tilbúningur og fals.

Myndin sýnir hvernig Trump sér framtíðina fyrir sér.

Trump birtir einnig skilaboð sem hann segist hafa fengið frá Emmanuel Macron Frakklandsforseta, þar sem Macron virðist segja að löndin séu samtaka varðandi Sýrland og geti gert góða hluti varðandi Íran en hann skilji ekki hvað Trump sé að fara varðandi Grænland.

Þá virðist Macron, samkvæmt Truth Social færslu Trump, bjóðast til þess að boða til G7 fundar í París eftir World Economic Forum í Davos, sem nú stendur yfir, þar sem Úkraínumönnum, Dönum og Sýrlendingum yrði boðið og Rússum á hliðarlínunni.

Þá leggur hann til að leiðtogarnir tveir eigi kvöldverð í París á fimmtudaginn.

Trump segist einnig í færslu hafa átt gott samtal við Mark Rutte, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, en ítrekar að það verði ekki aftur snúið varðandi Grænland og að Bandaríkin séu eina ríkið sem getur tryggt frið í heiminum. Það verði hins vegar ekki gert nema í gegnum „STYRK!“ skrifar forsetinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×