Erlent

Farið yfir skandalinn í Minnesota: Vopnvæðir fjár­svik til að refsa „bláum ríkjum“

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur verið verulega harorður í garð yfirvalda í Minnesota og íbúa ríkisins af sómölskum uppruna, sem hann hefur meðal annars kallað rusl og sagt að hann vilji vísa úr landi. Langflestir þeirra eru þó bandarískir ríkisborgarar.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur verið verulega harorður í garð yfirvalda í Minnesota og íbúa ríkisins af sómölskum uppruna, sem hann hefur meðal annars kallað rusl og sagt að hann vilji vísa úr landi. Langflestir þeirra eru þó bandarískir ríkisborgarar. AP/Julia Demaree Nikhinson

Bandaríkjaforseti hefur vopnvætt ásakanir um fjársvik til að refsa ríkjum þar sem Demókratar halda í valdtaumana, sem gjarnan eru kölluð blá ríki. Með því að halda því fram að fjárveitingar sem ætlaðar eru til styrkjamála séu misnotaðar hefur forsetinn fundið átyllu til að halda aftur af fjárveitingunum.

Í síðustu viku tilkynnti ríkisstjórnin að búið væri að stöðva um tíu milljarða dala fjárveitingar til fimm ríkja sem ætlað er að hjálpa foreldrum og börnum. Þau ríki eru Kalifornía, Illinois, New York, Minnesota og Colorado. Samkvæmt frétt Politico byggja þessar aðgerðir á ósönnuðum ásökunum um umfangsmikil fjársvik í þessum ríkjum.

Málaferli vegna þessara peninga standa nú yfir.

Alríkissaksóknurum hefur einnig verið skipað að hefja rannsóknir á meintum fjársvikum í þessum ríkjum og öðrum. Aðgerðir Donalds Trump Bandaríkjaforseta byggja að miklu leyti á umfangsmiklum fjársvikamálum frá Minnesota, sem Trump-liðar og bandamenn forsetans hafa þó verið að blása upp.

Í samtali við Politico segja nokkrir þingmenn Demókrataflokksins að Trump sé hreinlega að refsa svokölluðum bláum ríkjum fyrir það að vera stjórnað af Demókrötum. Hann hafi sagst ætla að gera það og sé nú að standa við það.

Sviku fúlgur fjár út úr ríkinu

Ásakanir forsetans byggja að mestu leyti á umfangsmiklu svikamáli, eða málum, í Minnesota. Fjársvikamálin í Minnesota rötuðu fyrst á borð yfirvalda árið 2021. Síðan þá hafa að minnsta kosti 98 verið ákærðir og 64 sakfelldir. Margir þeirra eru af sómölskum uppruna. Hvíta húsið segir það eiga við 85 af 98 ákærðum.

Málin hafa reglulega verið til umfjöllunar í Minnesota og víðar í Bandaríkjunum á undanförnum árum en ríkisstjórn Trumps og bandamenn þeirra vestanhafs hafa vakið mikla athygli á þeim á undanförnum mánuðum og notað þau í pólitískum tilgangi.

Umfjöllun Trump-liða og ýmissa fjölmiðla hefur samkvæmt Axios ekki alltaf byggt á sannleikanum. Alríkissaksóknarar og aðrir eftirlitsaðilar höfðu lengi varað embættismenn í Minnesota við því að verulegur skortur væri á eftirliti með margvíslegum styrkjaverkefnum í ríkinu. Möguleiki á umfangsmiklum fjársvikum væri til staðar.

Alríkissaksóknarar segja að upphæðin gæti samsvarað allt að níu milljörðum dala, samkvæmt samantekt CBS News. Tim Walz, ríkisstjóri, hefur sagt mögulegt að upphæðin gæti verið talin í milljörðum dala, það er að segja meira en einum milljarði, en segir níu milljarða dali fjarri lagi. 

Lugu um matargjafir til barna

Stærsti hluti málsins snýr að meintum góðgerðasamtökum sem kölluðust „Feeding our future“. Hópurinn á bak við samtökin sagðist starfa með veitingastöðum og öðrum matvælaframleiðendum við að útvega börnum mat.

Með aðstoð ýmissa fyrirtækja fölsuðu góðgerðasamtökin fjölda matargjafa yfir langt tímabil og höfðu um 250 milljónir dala af ríkinu.

Feeding our future voru leidd af konu sem heitir Aimee Bock. Hún var sakfelld fyrr á þessu ári en þó nokkrir aðrir sem komu að svikunum hafa verið dæmdir eða játað sekt. Þeirra á meðal var maður sem heitir Salim Said en í samstarfi við Bock hélt hann því fram að hann væri að fæða þúsundir barna á dag með hjálp góðgerðarsamtakanna.

Embættismenn höfðu tiltölulega snemma áhyggjur af starfsemi Feeding our future og hægðu verulega á styrkveitingum til samtakanna. Forsvarsmenn þeirra höfðuðu þá mál gegn ríkinu og sökuðu embættismenn um rasisma.

Innri rannsókn sýndi fram á að ótti embættismanna við lögsókn og neikvæða umfjöllun í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum hafði áhrif á ákvarðanatöku þeirra og gerði forsvarsmönnum samtakanna kleift að svíkja fé af ríkinu.

Tim Walz, ríkisstjóri Minnesota.AP/Alex Kormann

Lugu um hjálp handa eldri borgurum og fötluðum

Annað mál, sem uppgötvaðist í sumar, snýr að hjálparsamtökum sem ætlað var að hjálpa eldri borgurum og fötluðu fólki að finna húsnæði. Samtökin lögðu fram fjölda falskra reikninga til yfirvalda og fengu í staðinn styrki á fölskum forsendum en búið er að ákæra að minnsta kosti þrettán vegna svikanna.

Saksóknarar segja, samkvæmt CBS, að of lítið eftirlit hafi verið með þessum styrkveitingum. Þeir segja einnig að það hefði átt að vekja athygli að kostnaður vegna þeirra var meiri en hundrað milljónir dala í fyrra, þó verkefnið hafi ekki átt að kosta meira en um 2,6 milljónir dala á ári.

Ein svikasamtökin sneru að aðstoð handa einhverfum. Forsvarsmenn þeirra sendu bæði falska reikninga og greiddu í einhverjum tilfellum foreldrum einhverfra barna fyrir að fá að skrá börn þeirra hjá sér.

Asha Farhan Hassan heitir einn af leiðtogum þessara samtaka en hún kom einnig að Feeding our future.

Frá dagvistun í Minneapolis, þar sem tvö börn horfa á sjónvarpið.AP/Mark Vancleave

Áhrifavaldur vakti athygli Trump-liða

Annað mál sem hefur fengið mikla athygli að undanförnu snýr að leikskólum og dagvistunarúrræðum í og við Minneapolis. Hægrisinnaður áhrifavaldur og hrekkjalómur birti í lok desember myndband þar sem hann heimsótti slíka staði sem fá styrki frá ríkinu.

Í þessu myndbandi krafðist Nich Shirley, áhrifavaldurinn, þess við starfsmenn, sem margir voru af sómölskum uppruna, að fá upplýsingar um börn á staðnum eða að fá að sjá þau og mynda. Shirley staðhæfði að á tólf stöðum hefðu engin börn verið og hélt því fram að hann hefði komið upp um að minnsta kosti hundrað milljón dala svikamyllu.

Ásakanir hans hafa þó ekki verið staðfestar og í mörgum tilfellum benda rannsóknir sem gerðar voru í kjölfarið að hann hafi haft rangt fyrir sér.

Eins og fram kemur í frétt NPR þá sagði yfirmaður einnar dagvistar að Shirley hefði komið eftir lokunartíma. Í öðru tilfelli var starfsfólk CNN að taka viðtal við hann fyrir utan annan stað og í bakgrunni voru foreldrar að mæta með börn. Shirley gaf í skyn að þau væru að þykjast.

Greining CBS sýndi einnig fram á að Shirley virðist hafa farið frjálslega með sannleikann. Embættismenn sögðu að tveimur stöðum sem hann heimsótti hefði verið lokað fyrr á árinu. Allir hinir staðirnir höfðu þar að auki verið heimsóttir af eftirlitsaðilum undanfarna sex mánuði.

Í þeim heimsóknum fannst margt sem þótti óviðunandi en í engum tilfellum fundust vísbendingar um fjársvik.

Yfirvöld í Minnesota og alríkissaksóknarar voru í upphafi árs með fjórtán mismunandi fjársvikamál sem tengjast styrkjaveitingum til rannsóknar, samkvæmt CBS. Engin þeirra rannsókna tengdist leikskólum eða dagvistun.

Það hefur víst breyst, samkvæmt Hvíta húsinu, sem segir mörg fyrirtæki sem Shirley heimsótti nú sögð til rannsóknar.

Birti áður myndbönd um hrekki og sprell

Hægri sinnaðir aðilar vestanhafs hafa ítrekað lofað Shirley í hástert. Þeirra á meðal er Elon Musk, auðugasti maður heims, og JD Vance, varaforseti. Hann deildi myndbandi Shirley á samfélagsmiðlum og sagði hann hafa sýnt frábæra fréttamennsku.

Shirley byrjaði sem unglingur að birta myndbönd um líf sitt í Utah í Bandaríkjunum og gerði það um árabil. Síðan fór hann að gera myndbönd um ýmsa hrekki. Í einu tilfelli svindlaði hann sér inn í brúðkaup áhrifavaldsins Jake Paul. Hann plataði fólk til að mæta í prufur fyrir tónlistarmyndband sem átti að vera fyrir nýtt lag eftir Justin Bieber. Þá myndaði hann sig einnig fyrir utan þinghúsið í Bandaríkjunum þann 6. janúar 2021, þegar stuðningsmenn Trumps ruddu sér leið þar inn.

Skömmu síðar lýsti hann því yfir að hann ætlaði að taka sér hlé frá því að birta myndbönd á YouTube og verja tveimur árum í Síle á vegum Mormónakirkjunnar.

Eftir að Shirley sneri aftur til Bandaríkjanna og aftur á YouTube árið 2023 urðu myndbönd hans mun pólitískari en áður og hefur hann töluvert fjallað um málefni innflytjenda í Bandaríkjunum og Suður-Ameríku.

Hann birti einnig myndband þar sem hann gaf í skyn að stríðið í Úkraínu væri ekki raunverulegt.

Í október var Shirley svo boðið í hringborðsumræður í Hvíta húsinu um Antifa-hreyfinguna svokölluðu, sem berst gegn fasisma en Trump hefur skilgreint sem hryðjuverkasamtök. Í þeim umræðum staðhæfði Shirley að hann hefði heimsótt fimmtán lönd vegna fréttamennsku sinnar og ekkert þeirra hefði verið eins hættulegt og Bandaríkin.

Þar væri hættan gífurleg vegna mótmæla gegn ríkisstjórn Trumps.

Einblína á Sómala

Eftir að Shirley birti myndbandið hefur ríkisstjórn Trumps stöðvað fjárveitingar til Minnesota sem ætlað er að styðja fátæka foreldra við að eiga börn. Um er að ræða um 185 milljónir dala.

Þá hefur ríkisstjórnin tilkynnt hertar reglur varðandi það hvernig ríki Bandaríkjanna geta fengið fjárhagsstuðning frá alríkinu vegna styrkjamála og í raun gert það mun erfiðara.

Trump skipaði þar að auki Kristi Noem, heimavarnaráðherra sínum, að senda fjölda útsendara alríkisins til Minnesota, þar sem þeir hafa beint sérstakri athygli að samfélagi fólks af sómölskum uppruna.

Hvíta húsið birti í nótt myndband þar sem Scott Bessent, fjármálaráðherra, segir bandarísku þjóðina þá gjafmildustu í heimi og skammast yfir því að innflytjendur séu að ræna ríkisstjórnina. Það sé ekki hægt í Bandaríkjunum, þó innflytjendurnir hafi gert það heima fyrir.

Myndbandið er úr viðtali sem Bessent var í en hann kallaði Walz, ríkisstjóra Minnestoa, einnig heigul í viðtalinu og sagði að hann gæti ekki falið sig til lengdar.

Trump og embættismönnum hans hefur á undanförnum mánuðum verið tíðrætt um fólk af sómölskum uppruna í Bandaríkjunum. Bæði Trump og JD Vance hafa til að mynda talað um ákveðið „Sómalíuvandamál“ þar í landi. Trump hefur ekki verið feiminn við að segja að hann vilji alla Sómala burt frá Bandaríkjunum og jafnvel svipta Bandaríkjamenn af sómölskum uppruna ríkisborgararétti.

Sómarar áhyggjufullir

Fjölmargir Sómalar hafa í gegnum árin flúið eða ferðast til Bandaríkjanna og fengið þar hæli og sest að. Margir þeirra búa í Minnesota og í Minneapolis, fjölmennustu borg ríkisins, og telja um hundrað þúsund. Um 260 þúsund manns af sómölskum uppruna búa í Bandaríkjunum og 42 prósent þeirra í Minnesota.

Meirihluti þeirra er fæddur í Bandaríkjunum og rúmlega 92 prósent þeirra eru, samkvæmt frétt New York Times, með bandarískan ríkisborgararétt. Aðrir eru meðal annars hælisleitendur eða í Bandaríkjunum ólöglega.

Í samtali við blaðamenn New York Times segja margir að þeim finnist þeir bera skotmark á bakinu, fyrir það að rekja uppruna sinn til Sómalíu. Börn eru sögð hafa komið grátandi heim úr skólanum eftir að hafa verið kölluð „rusl“, eins og Trump kallaði Sómala nýlega.

Á undanförnum vikum segja þeir sem rætt var við að ástandið hafi versnað til muna, samhliða eldfimum áróðri Trump-liða í þeirra garð og aukinni viðveru útsendara Innflytjenda- og tollaeftirlits Bandaríkjanna (ICE) og annarra alríkisstofnanna í Minneapolis.

Um tvö þúsund starfsmenn heimavarnaráðuneytisins hafa verið sendir til Minneapolis og stendur til að fjölga þeim enn frekar. Þessir útsendarar hafa gengið um fjölbýlishús og verslunarmiðstöðvar, krafið þeldökkt fólk um skjöl og handtekið það.

Umdeild banaskot

Á dögunum skaut einn útsendari ICE mótmælanda í Minneapolis. Atvikið er mjög umdeilt og hefur aukið spennuna í borginni og ríkinu öllu til muna.

Konan sem skotin var til bana í gær hét Renee Nicole Macklin Good og var 37 ára gömul. Hún var skotin í höfuðið þegar útsendir ICE hleypti af þremur skotum inn í bíl hennar. Trump-liðar hafa haldið því fram að hún hafi reynt að keyra yfir manninn sem skaut hana en Trump sjálfur hefur sagt að hún hafi keyrt yfir hann og hann hafi verið heppinn að lifa af.

Myndbönd af vettvangi styðja þá frásögn ekki.

Minnesota-ríki og yfirvöld í borgunum Minneapolis og St. Paul hafa höfðað mál gegn ríkisstjórn Trumps og krefjast þess að ríkinu verði gert að fjarlægja útsendara heimavarnaráðuneytisins. Í lögsókninni er því haldið fram að vera þeirra í Minnesota sé eingöngu ætlað að refsa ráðamönnum og íbúum ríkisins og er vísað til þess að sambærilegar aðgerðir megi ekki sjá í öðrum ríkjum Bandaríkjanna.

Því hefur verið haldið fram að þeir hafi verið sendir þangað vegna áðurnefndra fjársvika en í lögsókninni segir, samkvæmt AP fréttaveitunni, að útsendarar ICE og Landamæraeftirlitsins hafi enga reynslu í slíkum málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×