Newcastle á­fram eftir bráða­bana og mikla dramatík

Sindri Sverrisson skrifar
Harvey Barnes og Nick Woltemade fagna eflaust vel í kvöld.
Harvey Barnes og Nick Woltemade fagna eflaust vel í kvöld. Getty/Michelle Mercer

Eftir ótrúlega dramatík, vítakeppni og bráðabana er Newcastle komið áfram í 32-liða úrslit ensku bikarkeppninnar í fótbolta, með sigri gegn Bournemouth í úrvalsdeildarslag í dag.

Staðan var 2-2 eftir jöfnunarmark Newcastle í blálokin á venjulegum leiktíma, og 3-3 eftir að bæði lið skoruðu í lokin á framlengingunni. Því tók við löng vítaspyrnukeppni.

Anthony Gordon og Marcus Tavernier skoruðu úr fyrstu spyrnum liðanna.

Nick Woltemade smellti svo boltanum í þverslána og út, úr annarri spyrnu Newcastle, en Aaron Ramsdale varði þriðju spyrnu Bournemouth, frá Evanilson. Djordje Petrovic svaraði þá með því að verja slaka spyrnu Bruno Guimaraes og Lewis Cook skoraði í kjölfarið, svo Bournemouth var 2-1 yfir eftir fyrstu þrjár spyrnur liðanna.

Sandro Tonali skoraði þá og Ramsdale varði aftur, frá Alex Jimenez, svo staðan var aftur jöfn, 2-2, og ein spyrna eftir á lið. Joelinton skoraði þá af öryggi fyrir Newcastle líkt og Marcos Senesi fyrir Bournemouth, og við tók æsispennandi bráðabani.

Þar skoraði Newcastle úr fyrstu fjórum spyrnum sínum áður en Ramsdale náði að verja frá Bafodé Diakité og tryggja Newcastle sigur.

Barnes nálægt því að verða aftur hetjan

Rétt fyrir vítakeppnina hafði Harvey Barnes virst ætla að verða hetja Newcastle, í annað sinn á fjórum dögum, þegar hann skoraði annað mark sitt tveimur mínútum fyrir lok framlengingarinnar og kom Newcastle í 3-2. 

Þá var hins vegar enn tími til stefnu fyrir Marcus Tavernier til að pota inn jöfnunarmarki fyrir gestina og ná fram vítaspyrnukeppni.

Fjörið í leiknum hafði annars verið mjög mikið, eftir markalausan fyrri hálfleik. Barnes kom heimamönnum yfir á 50. mínútu, eftir mjög góða stungusendingu frá Woltemade. Barnes hafði skorað tvö mörk og þar af sigurmarkið í 4-3 sigrinum gegn Leeds á miðvikudaginn. 

Alex Scott náði hins vegar fljótlega að jafna metin fyrir gestina, eftir frábært spil, og David Brooks skoraði svo með mjög góðu skoti eftir skyndisókn á 68. mínútu.

Gordon jafnaði úr víti í lokin

Newcastle-menn reyndu hvað þeir gátu að jafna metin og Barnes náði að koma boltanum í netið undir lokin, þegar hann fylgdi á eftir skoti Woltemade, en var réttilega dæmdur rangstæður.

En þegar komið var fram í uppbótartíma fékk Newcastle víti, þegar Anthony Gordon stakk boltanum fram á Sandro Tonali sem var felldur af Djordje Petrovic, markverði gestanna. Gordon skoraði úr vítinu og knúði fram framlengingu þar sem dramatíkin var ekki minni, eins og fyrr segir.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira