Erlent

„Trúið ekki þessari áróðursvél“

Agnar Már Másson skrifar
Ríkisstjóri Minnesota skellir skömminni á ICE og Trump-stjórnina.
Ríkisstjóri Minnesota skellir skömminni á ICE og Trump-stjórnina. Samett/AP

Donald Trump Bandaríkjaforseti kemur ICE, innflytjendaeftirliti Bandaríkjanna, til varnar eftir að fulltrúi ICE skaut í dag 37 ára bandarískan ríkisborgara til bana í Minneapolis í Minnesota. Ríkisstjóri Minnesota harmar atvikið en biðlar til íbúa að halda ró sinni, „bíta ekki á agnið“ og trúa ekki „áróðursvél“ Trump-stjórnarinnar. Ríkisstjórinn vill meina að aðgerðir ICE í borginni séu til þess fallnar að skapa óreiðu.

Forsetinn tjáir sig um málið í færslu á samfélagsmiðlum. Fulltrúi ICE, innflytjendaeftirlits Bandaríkjanna, skaut í dag 37 ára konu, og bandarískan ríkisborgara, til bana í Suður-Minneapolis í Minnesota þar sem hún sat í bílnum sínum, að sögn yfirvalda. 

Ráðuneytið gaf þær skýringar að „óeirðarseggur“ hefði „vopnvætt“ ökutæki sitt og ICE-liðinn, sem hefði óttast um líf sitt, svarað með „varnarskoti“. 

Trump vill meina að konan hafi ekið grimmlega yfir fulltrúa ICE en af myndskeiði af vettvangi að dæma er ekki að sjá að nokkur ICE-fulltrúi hafi hafnað undir bílnum. 

Sjónarvottar lýstu því við staðarmiðilinn MPR að konan hefði lagt bílnum á miðri götu til að mótmæla aðgerðum lögreglunnar. Þeir segja að atvikið hafi gerst um klukkan 9.30 að staðartíma við Portland Avenue.

Á myndskeiðum sem hafa verið í dreifingu á samfélagsmiðlum má sjá að minnsta kosti þrjá vopnaða ICE-liða nálgast tækið, einn þeirra reyna að opna hurðina meðan annar nálgaðist bílinn að framanverðu. Þegar bílnum var síðan ekið örlítið aftur á bak og svo aftur fram hleypti annar ICE-fulltrúinn skotum í að bílnum er hann smeygði sér undan ökutækinu. Þá virðist hann einnig hafa reynt að skjóta í gegnum hliðarrúðu bílsins. Á ljósmyndum má sjá skotfar í framrúðu bílsins.

ICE-fulltrúinn liggi upp á spítala

„Þessi atvik eru að gerast vegna þess að öfgavinstrið er að ógna, ráðast á og beina spjótum sínum að lögreglumönnum og fulltrúum ICE á hverjum degi,“ segir Bandaríkjaforseti. Enn fremur kveðst Trump eiga erfitt með að trúa að ICE-fulltrúinn sé enn á lífi og forsetinn segir hann liggja á sjúkrahúsi.

Úr færslu Trumps í kvöld.Skjáskot/Truth Social

„Drullið ykkur út“

Borgarstjóri Minneapolis og ríkisstjóri Minnestora harma atvikið og gefa lítið fyrir skýringar ICE og Heimavarnaráðuneytisins.

„Drullið ykkur út úr Minneapolis,“ beindi Jacob Frey borgarstjóri til fulltrúa ICE í borginni. Hann sagði aðgerðir stofnunarinnar í Minneapolis til þess fallnar að skapa óreiðu. 

„Trúið ekki þessari áróðursvél,“ sagði Tim Walz ríkisstjóri á X en í gær ræsti Trump-stjórnin út tvö þúsund ICE-fulltrúa til tvíburaborganna Saint Paul og Minneapolis í rækilegri óþökk stjórnvalda þar.  

Tim Walz er ríkisstjóri Minnesota og var varaforsetaefni Kamölu Harris í síðustu forsetakosningum.AP

Í ræðu í kvöld mælti Walz gegn því við íbúa Minnesota „að bíta á agnið“ og biðlaði til íbúa að halda ró sinni. 

NBC hefur eftir heimildarmanni í ICE að fulltrúum eftirlitsins sé ráðlagt að nálgast ekki bifreiðar að framanverðu og skjóta aldrei á ökutæki á ferð.

Íbúar í Minneapolis bera lögregluyfirvöldum ekki ávallt fagra söguna. Aðeins nokkrum götum frá var blökkumaðurinn George Floyd myrtur árið 2020 af hvítum lögreglumanni í borginni sem var að handtaka hann vegna gruns um að hafa borgað með fölsuðum seðli. Lögreglumaðurinn þrýsti hné sínu á háls Floyd þar til hann lést. Upp úr þessu spratt bylgja mótmæla víða um Bandaríkin sem kenndu sig við Black Lives Matter en víða spunnust mótmælin svo út í óeirðir, ekki síst í Minneapolis.

Mótmæli brutust út við vettvang lögregluaðgerðarinnar í dag og einhver átök voru á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×