Erlent

Segir Venesúela munu af­henda Banda­ríkjunum milljónir tunna af olíu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Að sögn Trump verður olían flutt til hafnar í Bandaríkjunum án tafar.
Að sögn Trump verður olían flutt til hafnar í Bandaríkjunum án tafar. Getty/Tasos Katopodis

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á samfélagsmiðlinum Truth Social í gær að stjórnvöld í Venesúela myndu afhenda Bandaríkjunum hráolíu að andvirði tveggja milljarða dala.

„Þessi olía verður seld á markaðsvirði og fjármunirnir verða á mínu forræði sem forseta Bandaríkjanna til að tryggja að þeir verði nýttir í þágu íbúa Venesúela og Bandaríkjanna!“ sagði Trump.

Stjórnvöld í Venesúela hafa ekki tjáð sig um yfirlýsinguna.

Milljónir tunna af olíu sitja nú í tönkum og um borð í skipum í Venesúela, eftir að Bandaríkjamenn hófu aðgerðir sínar undan ströndum landsins. Þeir hafa meðal annars lagt hald á olíuflutningaskip og þá náðu aðgerðirnar hámarki þegar ráðist var á höfuðborgina Caracas og forsetinn Nicolás Maduro handsamaður og fluttur til Bandaríkjanna.

Maduro var leiddur fyrir dómara í fyrradag, þar sem hann sagði að honum hefði verið rænt og að hann væri nú stríðsfangi. Aðrir ráðamenn í Venesúela hafa einnig talað um mannrán en hins vegar virðast stjórnvöld þar í landi ætla að koma til móts við kröfur Bandaríkjamanna að einhverju leyti, ef það er rétt sem Trump heldur fram um olíuna.

Trump hefur krafist þess að starfandi forseti Venesúela, Delcy Rodríguez, veiti bandarískum olíufyrirtækjum óhindraðan aðgang að olíuauðlindum landsins. Það á hins vegar enn eftir að koma í ljós hversu áfjáð fyrirtækin eru að fara inn í Venesúela, þar sem fullkomin óvissa ríkir um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×