Erlent

Fyrr­verandi fjár­málaráðherra Kanada verður ráð­gjafi Selenskí

Kjartan Kjartansson skrifar
Chrystia Freeland varð fyrst kvenna fjármálaráðherra Kanada árið 2020 og þurfti þannig að stýra efnahagsmálum á tímum kórónuveirufaraldursins. Hún er af úkraínskum ættum og hefur verið ötull stuðningsmaður Úkraínu frá því að allsherjarinnrás Rússa hófst árið 2022.
Chrystia Freeland varð fyrst kvenna fjármálaráðherra Kanada árið 2020 og þurfti þannig að stýra efnahagsmálum á tímum kórónuveirufaraldursins. Hún er af úkraínskum ættum og hefur verið ötull stuðningsmaður Úkraínu frá því að allsherjarinnrás Rússa hófst árið 2022. AP/Spencer Colby/The Canadian Press

Chrystia Freeland, fyrsta konan til að gegna embætti fjármálaráðherra Kanada, hefur ráðið sig sem ólaunaðan efnahagsráðgjafa Volodýmýrs Selenskí, forseta Úkraínu. Hún tilkynnti í gær að hún ætlaði að segja af sér þingmennsku til þess að sinna ráðgjafastarfinu.

Selenskí greindi frá því að Freeland hefði fallist á að gerast ráðgjafi hans í efnahagsmálum í gær. Vísaði hann til reynslu hennar af því að laða að fjárfesta og innleiða efnahagslegar umbætur.

Freeland, sem er af úkraínskum ættum, hefur verið sérstakur sendifulltrúi Kanada vegna enduruppbyggingar Úkraínu frá því í september. Hún tilkynnti þá að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér aftur í þingkosningum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

„Úkraína er á framlínunni í baráttunni fyrir lýðræði í heiminum og ég fagna þessu tækifæri til þess að leggja mitt af mörkum launalaust sem efnahagsráðgjafi,“ sagði Freeland þegar hún sagði frá vistaskiptunum í gær.

Ráðning Freeland er liður í uppstokkun Selenskí í ráðgjafaliði sínu. Hann skipti út yfirmanni öryggisþjónustunnar SBU í gær og réð yfirmenn leyniþjónustu hersins sem nýjan skrifstofustjóra sinn.

Sinnaðist við Trudeau

Freeland hefur setið á kanadíska þinginu frá 2013. Hún var lykilmanneskja í ríkisstjórnum Justins Trudeau, fyrrverandi forsætisráðherra, og gegndi meðal annars embættum fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og ráðherra alþjóðaviðskipta.

Hún átti stóran þátt í falli Trudeau þegar hún sagði af sér sem ráðherra síðla árs 2024 og sakaði hann um að taka hótanir þá verðandi stjórnvalda í Bandaríkjunum um verndartolla á kanadískar vörur ekki alvarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×