Enski boltinn

Telur að Arteta myndi í­huga að taka við Manchester United

Aron Guðmundsson skrifar
Skytturnar hjá Arsenal hafa verið í stuði undir stjórn Mikel Arteta á yfirstandandi tímabili
Skytturnar hjá Arsenal hafa verið í stuði undir stjórn Mikel Arteta á yfirstandandi tímabili

Rio Ferdinand, fyrrverandi leikmaður Manchester United og núverandi sparkspekingur telur á Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, myndi íhuga að taka við Manchester United yrði honum boðið starfið.

Ferdinand sagði þessa skoðun sína í YouTube þætti sínum Rio Ferdinand Presents fyrr í dag eftir að greint hafði verið frá því að Ruben Amorim hefði verið rekinn úr starfi knattspyrnustjóra hjá Manchester United. 

Amorim tók við United af Erik ten Hag í byrjun nóvember 2024. Undir hans stjórn endaði United í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og tapaði fyrir Tottenham, 1-0, í úrslitum Evrópudeildarinnar. Amorim skilur við United í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið er með 31 stig eftir tuttugu umferðir.

Eftir leik gegn Leeds United í gær var Amorim harðorður í garð stjórnenda Manchester United á blaðamannafundi og ætla má að ummæli hans þar hafi verið síðasti naglinn í kistu hans í starfi sem knattspyrnustjóri liðsins. 

Veðbankar eru strax farnir á fullt við að lista upp knattspyrnustjórum sem teljast líklegir arftakar Amorim í starfi. Þar er Oliver Glasner, knattspyrnustjóri Crystal Palace efstur á lista en einnig stjórar eins og Enzo Maresca, sem var á dögunum rekinn frá Chelsea, sem og Unai Emery sem er að gera frábæra hluti með lið Aston Villa. 

Í beinni útsendingu í þætti sínum fyrr í dag sagðist Rio Ferdinand vera á þeirri skoðun á að aðeins einn af núverandi knattspyrnustjórum ensku úrvalsdeildarinnar myndi ekki íhuga að taka við Manchester United.

„Pep Guardiola (Manchester City) myndi horfa á þetta starf og segja að hann væri ánægður þar sem að hann er núna,“ sagði Ferdinand en á sama andartaki benti meðstjórnandi hans í þættinum á það hvort Mikel Arteta, stjóri Arsenal, væri ekki á sömu skoðun og Pep. 

Arsenal er með sex stiga forskot á Manchster City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar, situr einnig á toppi Meistaradeildarinnar, er enn inni í enska bikarnum og komið í undanúrslit enska deildarbikarsins. 

„Hann myndi aldrei segja það upphátt en ég er að segja ykkur það, Mikel Arteta myndi horfa á þetta starf og íhuga þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×