Erlent

Herða reglur og ráðast í endur­kaup á skot­vopnum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hundruð tóku þátt í viðburði við Bondi-strönd í gær, þegar brimbrettakappar réru með höndunum út á sjó á brettum sínum og mynduðu hring til heiðurs þeim sem létust í árásinni.
Hundruð tóku þátt í viðburði við Bondi-strönd í gær, þegar brimbrettakappar réru með höndunum út á sjó á brettum sínum og mynduðu hring til heiðurs þeim sem létust í árásinni. Getty/Audrey Richardson

Stjórnvöld í Ástralíu hafa tilkynnt um umfangsmiklar breytingar á skotvopnalögum í kjölfar skotárásarinnar á Bondi-strönd á sunnudag, þar sem fimmtán voru myrtir.

Samkvæmt BBC er um að ræða viðamestu breytingar á löggjöfinni frá Port Arthur-árásinni árið 1996, þegar 35 voru myrtir af Martin Bryant. Hinn 24 ára Naveed Akram hefur verið ákærður fyrir morðin á Bondi-strönd. Faðir hans Sajid, sem einnig tók þátt í árásinni, var skotinn til bana.

Tillögur ríkisstjórnarinnar fela meðal annars í sér takmarkanir á fjölda skotvopna sem einstaklingur má eiga en Sajid átti sex byssur og þar af voru fjórar notaðar í skotárásinni. 

Erlendir miðlar segja að daglegt líf sé að komast aftur í fastar skorður á Bondi-strönd eftir harmleikinn síðustu helgi.Getty/Cameron Spencer

„Við vitum að annar hryðjuverkamannanna var með skotvopnaleyfi og átti sex byssur, þrátt fyrir að búa í miðju úthverfi Syndey. Það er engin ástæða fyrir mann í þeirri stöðu að eiga svona mörg skotvopn,“ sagði forsætisráðherrann Anthony Albanese í morgun.

Þá verða fleiri byssur bannaðar og ríkisborgararéttur forsenda skotvopnaleyfis.

Stjórnvöld hyggjast einnig ráðast í umfangsmikil endurkaup á skotvopnum, þar sem einstaklingum verður greitt fyrir að skila inn vopnum. Þar á meðal verða nýlega bönnuð og ólögleg skotvopn. Gert er ráð fyrir að það takist að taka hundruð þúsund skotvopna úr umferð með þessum hætti.

Alls er talið að um fjórar milljónir skotvopna séu nú í umferð í Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×