Erlent

Tak­markar getu ríkjanna til að setja gervigreindinni skorður

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump hefur reynst tæknifyrirtækjunum öflugur bandamaður.
Trump hefur reynst tæknifyrirtækjunum öflugur bandamaður. Getty/Alex Wong

Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði forsetatilskipun í gær sem miðar að því að takmarka getu einstakra ríkja Bandaríkjanna til að setja reglur um gervigreindariðnaðinn.

Tilskipunin veitir dómsmálaráðherra Bandaríkjanna völd til að höfða mál gegn ríkjum og ógilda lög sem eru ekki í þágu „yfirburða Bandaríkjanna á sviði gervigreindar á heimsvísu“.

Ef ríkin þráast við, áskilur forsetinn sér rétt til að halda frá þeim fjárframlögum.

Fregnirnar eru fagnaðarefni fyrir stjórnendur stórfyrirtækja í gervigreind, á borð við OpenAI, Google, Meta og fleiri.

Trump sagði tilskipunina myndu greiða fyrir einni alríkislöggjöf um gervigreind, sem yrði rétthærri öðrum lögum og reglum settum af ríkjunum. Sagði hann þetta fyrirkomulag nauðsynlegt til að tryggja yfirburði Bandaríkjanna gagnvart Kína.

Tilskipunin hefur mætt töluverðri andstöðu innan beggja stóru flokkanna vestanhafs, ef marka má New York Times. Þá má gera ráð fyrir að reynt verði á lögmæti hennar fyrir dómstólum, á þeirri forsendu að aðeins þingið hafi heimild til að víkja lögum sem sett eru af hverju ríki fyrir sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×