Enski boltinn

Sprengja frá Salah: Gerður að blóra­böggli og brostið sam­band við Slot

Valur Páll Eiríksson skrifar
Mohamed Salah tjáði sig um stöðu sína hjá Liverpool í kvöld.
Mohamed Salah tjáði sig um stöðu sína hjá Liverpool í kvöld. Getty/Stu Forster

Mohamed Salah segir Liverpool hafa fleygt sér undir rútuna, efast um framtíð sína hjá félaginu og segir samband hans og Arne Slot brostið. Egyptinn var á varamannabekknum hjá liðinu þriðja leikinn í röð í 3-3 jafntefli við Leeds United í kvöld.

Salah sat á bekknum í kvöld og kom ekki við sögu þegar Liverpool kastaði frá sér 2-0 forystu og fékk á sig jöfnunarmark í uppbótartíma eftir að hafa komist 3-2 yfir.

Salah segist hafa verið gerður að blóraböggli í ljósi slaks gengis Liverpool að undanförnu og að „einhver hjá félaginu vill ekki hafa mig hérna“.

Þá útilokar Egyptinn ekki brottför í janúar.

„Þetta er þriðja skiptið í röð á bekknum. Ég held það sé í fyrsta skipti á ferlinum,“ sagði hann við blaðamenn eftir leik á Elland Road í kvöld.

„Ég er mjög, mjög vonsvikinn. Ég hef gert svo mikið fyrir þetta félag undanfarin ár og sérstaklega á síðasta tímabili. Nú sit ég á bekknum og ég veit ekki hvers vegna,“ segir Salah.

„Það er eins og félagið hafi kastað mér undir rútuna. Það er þannig sem mér líður. Ég held það sé skýrt að einhver vilji kenna mér um þetta allt. Mér var lofað allskyns hlutum í sumar, nú þegar ég hef verið á bekknum í þrjá leiki, get ég ekki sagt að staðið sé við þau loforð.“

„Ég hef sagt oft áður að ég eigi gott samband við þjálfarann. En allt í einu eigum við ekkert samband lengur. Ég veit ekki hvers vegna, en það lítur þannig út fyrir mér að einhver vilji ekki hafa mig hjá klúbbnum,“ segir Salah.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×