Erlent

Tveir þjóð­varð­liðar skotnir ná­lægt Hvíta húsinu

Agnar Már Másson og Rafn Ágúst Ragnarsson skrifa
Viðbraðgsaðilar á vettvagi, nokkrum húsum frá Hvíta húsinu.
Viðbraðgsaðilar á vettvagi, nokkrum húsum frá Hvíta húsinu. AP

Tveir einkennisklæddir hermenn í þjóðvarðliði Bandaríkjanna eru í lífshættu eftir að hafa verið skotnir skammt frá Hvíta húsinu í miðbæ Washinton D.C. rétt fyrir klukkan 20 á íslenskum tíma. Meintur árásarmaður hefur verið handtekinn en hann er einnig særður. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti staðfestir þetta á samfélagsmiðlum. Kristi Noem heimavarnaráðherra segir að yfirvöld vinni náið með viðbragðsaðilum á svæðinu. Árásin átti sér stað rétt fyrir klukkan 15 að staðartíma.

Tugir viðbragðsaðila eru á vettvangi skotárásarinnar, sem varð á gatnamótum 17th Street NW og I Street, sem er aðeins einni götu frá Hvíta húsinu. Lögreglan í borginni bendir fólki á að forðast svæðið.

„Dýrið sem skaut þjóðvarðliðana tvo, sem báðir eru í lífshættu á sitthvorum spítalanum, er einnig afar sært, en mun þrátt fyrir það fá að gjalda afar þungt,“ skrifar þjóðarleiðtoginn á samfélagsmiðlinum Truth Social.  

Þyrla á vettvangi árásarinnar.AP

„Guð blessi okkar frábæra þjóðvarðlið og alla í hernum og lögreglunni. Þetta er frábært fólk að sönnu. Ég, sem forseti Bandaríkjanna, auk allra annarra sem tengjast forsetaembættinu, er með ykkur!“ 

Rauða blaðran á kortinu merkir vettvang árásarinnar. Skjáskot/Google Maps

Trump í Flórída

Karoline Leavitte, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, segir í yfirlýsingu að ráðamenn séu meðvitaðir um málið og „fylgist grannt með þessu hörmulega ástandi.“

Leavitt segir enn fremur að forsetinn hafi verið upplýstur um málið en hann er staddur í heimaríki sínu, Flórída, þar sem hann heldur upp á þakkargjörðarhátíð Bandaríkjamanna.

Umdeild viðvera þjóðvarðliða

Viðvera þjóðvarðliða í Washington hefur verið umdeild. Trump ræsti þá út í ágúst til að stemma stigu við meinta glæpaöldu í borginni. Í síðustu viku dæmdi dómari í ríkinu að hún væri líklegast ólögleg, einkum þar sem fjöldi þjóðvarðliða hafði verið ræstur út frá öðrum ríkjum. Dómarinn skipaði því Trump-stjórninni að draga þjóðvarðliðana til baka en réttaráhrifum var frestað til 11. desember. 

Frétt hefur verið uppfærð.

Ath. Í fyrri útgáfu af fréttinni kom fram að hinn grunaði hefði verið felldur. Hið rétta er að hann hafi verið handtekinn, samkvæmt fjölmiðlum i Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×